Fara í innihald

Sæmundur Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sæmundur Jónsson (11547. nóvember 1222) var íslenskur goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann bjó í Odda á Rangárvöllum og var af ætt Oddaverja, sonur Jóns Loftssonar í Odda og afkomandi Sæmundar fróða. Hann erfði ríki föður síns og naut mikillar virðingar. Um daga hans fór þó veldi Oddaverja heldur hnignandi, einkum eftir lát Páls biskups bróður Sæmundar 1211, og í valdabaráttu Sturlungaaldar voru þeir í aukahlutverki þótt þeir væru enn ein helsta höfðingjaættin og Sæmundur og börn hans kæmu víða við sögu.

Sæmundur var tvígiftur og átti einnig börn með frillum sínum. Á meðal barna hans má nefna Hálfdan á Keldum, mann Steinvarar Sighvatsdóttur, Helgu síðari konu Kolbeins unga, Solveigu konu Sturlu Sighvatssonar, Margréti konu Kolbeins kaldaljóss og móður Brands Kolbeinssonar, og Harald, Andrés, Vilhjálm og Filippus, sem allir voru goðorðsmenn nema Vilhjálmur, sem var prestur í Odda. Nöfn þeirra bræðra voru nýstárleg á sinni tíð og voru þeir hver um sig með allra fyrstu Íslendingum til að bera nafn sitt. Raunar hélst frumleiki í nafngjöfum áfram í ættinni því að á meðal barna bræðranna má nefna Theobaldo og Kristófórus Vilhjálmssyni og Randalín Filippusdóttur, og sonarsonur eins þeirra hét Karlamagnús.