Rangárvellir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rangárvellir er byggðarlag í Rangárvallasýslu, sveitin milli Ytri-Rangár og Eystri-Rangár. Efri hluti sveitarinnar er hraunbreiða, fremur gróðursnauð og vatnslítil, og sunnan við hana er víðáttumikið, sandborið sléttlendi en neðst á Rangárvöllum er mýrlent.

Áður en landgræðsluátak hófst á Rangárvöllum var víða mikill uppblástur og landeyðing en sveitin hefur þó löngum þótt gott landbúnaðarhérað og þar voru mörg stórbýli. Sögufrægust þeirra eru Oddi og Keldur.

Rangárvellir eru ásamt Ölfusi mesta jarðskjálftasvæði landsins og er vitað fyrir víst að tólf sinnum hafa fallið þar bæir í jarðskjálftum á seinustu átta öldum og þó hugsanlega mun oftar.

Í landi Gaddstaða á Rangárvöllum byggðist kauptúnið Hella upp frá 1927. Rangárvellir voru áður í Rangárvallahreppi en hann sameinaðist Djúpárhreppi og Holta- og Landsveit 1994 og nefnist hið sameinaða sveitarfélag Rangárþing ytra.