Fara í innihald

Báxít

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Báxít

Báxít er málmgrýti. Nær allur álmálmur er framleiddur úr báxíti. Báxít kemur fyrir sem veðrunarafurð berggrunns úr kísil með litlu járninnihaldi í hitabeltisloftslagi. Eru báxítnámur af þessum sökum flestallar á breiðu belti í kringum miðbaug. Báxít er unnið úr námum á yfirborði jarðar þannig að jarðvegi er flett af og hann geymdur þar til náman hefur verið tæmd. Báxít er þvegið og malað og leyst upp í mjög heitu vatni sem inniheldur vítissóda. Í vökvanum eru þá uppleyst natríumálnítrat og óupleystir hlutar úr báxiti sem innihalda járn, kísil og titanium. Þessi óuppleysti hluti báxits nefnist rauðleðja og botnfellur úr vökvanum og er fjarlægður. Þá er vökvanum með natríumálnítrat dælt í stóra tanka þar sem súrál botnfellur. Það botnfall er hitað í 1100 °C til að losna við kemískt bundið vatn. Þá kemur hvítt duft sem er hreint súrál.

Báxít inniheldur súrál eða áltríoxíð (Al2O3). Við álframleiðslu eru aðskotaefni hreinsuð frá súráli og þarf 2 til 3 kg af báxít til að framleiða 2 kg af súráli. Súrál er fíngert hvítt duft og er ál unnið úr því með rafgreiningu. Sú rafgreining þarf afar mikla orku en það þarf 15 kWh af raforku til að vinna 2 kg af áli. Tvö kg af súráli gefa eitt kg af áli.

Um þriðjungur af heimsframleiðslu báxíts kemur frá Ástralíu en Kína, Brasilía, Indland og Guinea vinna einnig mikið báxít.

Sjálft heitið er komið í íslensku um dönsku úr frönsku og dregur nafn af borginni Les Baux í suð-austurhlutanum af landinu þar málmgrýtið finnst í nokkru mæli.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]