19. júní (tímarit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

19. júní er íslenskt kvennatímarit sem upphaflega hóf göngu sína árið 1917. Frá árinu 1951 hefur Kvenréttindafélag Íslands gefið blaðið út og hefur það síðan þá komið út árlega á kvenréttindadaginn 19. júní.

Hægt er að skipta útgáfusögu tímaritsins í tvennt. Annars vegar tímabilið 1917-1929 þegar Inga Lára Lárusdóttir gaf blaðið út og ritstýrði því. Seinna tímabilið er eftir 1951 en síðan þá hefur Kvenréttindafélag Íslands annast útgáfu blaðsins.

1917-1929[breyta | breyta frumkóða]

Tveimur árum eftir að íslenskar konur hlutu kosningarétt eða þann 19. júní árið 1917 kom tímaritið 19. júní út í fyrsta sinn. Það var Inga Lára Lárusdóttir kennari og þekkt kvenréttindakona í Reykjavík sem hóf útgáfu blaðsins og rann ágóði af tölublaðinu í Landspítalasjóð Íslands sem safnaði fé til byggingar nýs Landspítala. Viðtökur voru góðar og var Inga Lára hvött til frekari útgáfustarfsemi og úr varð að blaðið skyldi koma út mánaðarlega. Blaðinu var ætlað að fjalla um öll þau mál sem konur höfðu áhuga á, „heimilis- og uppeldismálin eigi síður en opinber þjóðfélagsmál“ en einnig að flytja fregnir af málefnum kvenna í öðrum löndum.[1] Í blaðinu birtust m.a. greinar eftir Björgu C. Þorláksson, Laufeyju Vilhjálmsdóttur, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason.[2] Margar konur sem skrifuðu í blaðið settu þó ekki nöfn sín undir greinar sínar og gjarnan mátti sjá undirskriftir eins og „nágrannakona“, „vinkona“ eða „ein af norðan“ undir greinum blaðsins enda ekki rík hefð fyrir því á þessum tíma að konur rituðu blaðagreinar.[3]

Blaðið var pólitískt og fjallaði gjarnan um ýmis pólitísk málefni sem snertu konur og á síðum blaðsins kom einnig fram ítrekaður stuðningur við kvennaframboðin.[3] Rekstur blaðsins var erfiður og í leiðara síðasta tölublaðsins sem út kom í desember 1929 hvatti Inga Lára lesendur blaðsins til að standa skil á greiðslum því annars yrði útgáfu blaðsins hætt. Það virðist hafa gengið eftir því tölublöðin urðu ekki fleiri.[4] Eflaust hefur það ekki auðveldað útgáfunni lífið að árið 1928 hóf annað kvennablað, Brautin, göngu sína og sótti í svipaðan kaupendahóp.

1951-[breyta | breyta frumkóða]

Frá því að Inga Lára Lárusdóttir ritstýrði síðasta tölublaði 19. júní í árslok 1929 varð hlé á útgáfunni til ársins 1951 er Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) endurvakti útgáfuna. Tilgangurinn var fyrst og fremst að efla starfsemi Kvenréttindafélagins og þótti félagskonum tímaritaútgáfa ákjósanleg leið að því markmiði. Félagskonum þótt einnig sem kvenréttindadagurinn 19. júní væri að glata hátíðleika sínum og þeim þótti mikilvægt að halda mikilvægi dagsins á lofti með því að blaðið yrði kennt við daginn. Ritstýra blaðsins fyrstu árin var Svafa Þórleifsdóttir og var fyrsta tölublaðið gefið út í 3000 eintökum og var um 70 blaðsíður.[5]

Í fyrstu tölublöðunum virðist valdefling konunnar vera ofarlega á baugi en í ávarpi Sigríðar J. Magnússon formanns KRFÍ í fyrsta tölublaðinu segir hún að kvenréttindabaráttan snúist nú fyrst og fremst um að vekja konur til meðvitundar um rétt sinn og skyldur sem fullgildir þjóðfélagsþegnar.[6] Svipað var uppi á teningnum í grein Ragnheiðar Jónsdóttur skáldkonu sem taldi áhrifaleysi kvenna vera þeim sjálfum að kenna og sagði að með áhrifaleysi sínu hafi „þær brugðist sjálfum sér og þjóðfélaginu og einnig þeim konum og körlum, sem börðust fyrir frelsi og jafnrétti kvenna á sínum tíma.[7]

Í gegnum tíðina hafa efnistök 19. júní verið fjölbreytt og má nefna að frá upphafi hefur starfsemi KRFÍ verið gerð skil á síðum blaðsins en einnig hefur fjöldi viðtala við konur birst í blöðunum, fjallað hefur verið um listsköpun kvenna og baráttumál kvennahreyfingarinnar á hverjum tíma hafa verið tekin til umfjöllunar á síðum blaðsins.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Inga Lára Lárusdóttir, „Boðsbréf“, 1. júlí 1917 (skoðað 18. júní 2019)
  2. Kvennasögusafn.is, „Inga Lára Lárusdóttir“[óvirkur tengill] (skoðað 18. júní 2019)
  3. 3,0 3,1 Hrafnhildur Ragnarsdóttir, „Hver var hún?“, Sagnir 1. tbl. 24. árg. 2004.
  4. Inga Lára Lárusdóttir, „Kveðja“, 19. júní, 12. árg. 10 tbl. 1929 (skoðað 18. júní 2019)
  5. Sigríður Th. Erlendsdóttir, „Veröld sem ég vil“, (Reykjavík, 1993) bls. 454.
  6. Sigríður J. Magnússon, „Ávarp formanns KRFÍ“, 19. júní, 1. tbl. 1. árg. 1951 (skoðað 19. júní 2019)
  7. Ragnheiður Jónsdóttir, „Hvað er þá orðið okkar starf?“ 19. júní 1. tbl, 1. árg. 1951 (skoðað 19. júní 2019)