Hvanndalir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hvanndalir eru eyðibýli yst á Tröllaskaga austanverðum, á nesinu milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Þar var talið afskekktasta byggt ból á Íslandi, umgirt háum og bröttum fjöllum; sunnan þeirra gengur hið hrikalega Hvanndalabjarg fram í sjó og er þar með öllu ófært en norðan og vestan við þá eru Hvanndalaskriður. Fyrir þær var oftast fært en þó við illan leik.

Hvanndalir eru tvær dalskorur sem skerast inn í nesið og nefnist hinn nyrðri og stærri Hvanndalur en hinn syðri Sýrdalur. Bærinn stóð í mynni nyrðri dalsins og þykir þar fallegt bæjarstæði. Einnig mun einhvern tíma hafa verið hjáleiga í dalnum. Hvanndalir þóttu að sumu leyti góð bújörð fyrrum því þar er nokkuð gróðursælt á sumrin og snjóléttara en í nálægum fjörðum, túnstæðið stórt og slétt og engjalönd á dalnum. En lendingin er erfið og brimasöm og ofan hennar eru háir sjávarbakkar.

Lítið er vitað um byggð í Hvanndölum fyrr á öldum en hún kann að hafa verið stopul. Snemma á 17. öld bjó þar Tómas nokkur Gunnlaugsson en synir hans, Bjarni, Jón og Einar, voru hinir frægu Hvanndalabræður, miklir sjósóknarnar sem Guðbrandur biskup Þorláksson fékk til að fara í rannsóknarleiðangur til Kolbeinseyjar árið 1616 og kanna þau hlunnindi sem af eynni mætti hafa. Jörðin mun svo hafa verið í byggð til 1680. Þá fór hún í eyði og byggðist ekki aftur fyrr en 1807. Þá var búið í Hvanndölum til 1896 en þá keypti sveitarstjórn Hvanneyrarhrepps jörðina til þess að leggja hana í eyði, vegna þess hve afskekkt hún var og erfitt að komast þangað.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Örnefni í Sigluneshreppi". Af www.snokur.is, skoðað 20. júlí 2011“. Geymt