Hvanndalabjarg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjallið Arnfinnur við Ólafsfjörð, Hvanndalabjarg lengst til hægri

Hvanndalabjarg eða Hvanndalabjörg er norðan við Ólafsfjörð. Það er hæsta standberg frá sjó á landinu, 630 metrar í sjó niður, víða skorið djúpum og hrikalegum gjám og heitir sú stærsta Skötugjá. Ofan til í bjarginu er grónar syllur þar sem sauðfé hefur oft lent í sjálfheldu.

Þrætusker er fyrir miðju bjarginu og upp af því er Karlsurð. Um Þrætusker eru landamerki milli Ytri-Ár í Ólafsfirði og Hvanndala, en sá bær var í dalskoru norðan bjargsins og var einn afskekktasti bær á Íslandi meðan þar var byggð; þangað var oft ekki fært mánuðum saman, hvorki á landi né af sjó. Þaðan voru hinir nafnkunnu Hvanndalabræður.

Mikil tröllabyggð var talin vera í Hvanndalabjargi og um það (en einnig um Ólafsfjarðarmúla) var sögð sagan um húsfreyjuna í Málmey á Skagafirði, en á eynni voru sögð liggja þau álög að enginn mætti búa þar lengur en nítján ár. Jón nokkur bjó eitt sinn í Málmey með konu sinni og tóku þau ekki mark á álögunum og hugðust búa lengur í Málmey. En tuttugasta árið hvarf húsfreyjan í Málmey á aðfangadagskvöld jóla. Jón bóndi fór þá til sóknarprests síns, séra Hálfdanar Narfasonar á Felli í Sléttuhlíð, sem var sagður mikill galdramaður, og bað hann að hjálpa sér. Varð úr að séra Hálfdan reið á galdrareiðskjóta, sumir segja skrattanum sjálfum, út Skagafjörð og hafði Jón bónda fyrir aftan sig:

„Nú halda þeir áfram fyrir framan Siglufjörð og Siglunes og svo fyrir framan Héðinsfjörð, uns þeir koma að Hvanndalabjargi vestan við Ólafsfjörð. Þar nemur prestur loks staðar framan undir bjarginu. Er þar að sjá einsog stór hurð í bjarginu; lýkst hún upp og koma þar út tvær tröllkonur, mjög stórar og allar helbláar; leiða þær milli sín þriðju tröllkonuna, sem er nokkru minni, en öll líka helblá, nema hvítur kross í enni. „Þarna sérðu konuna þína, Jón,“ segir prestur.“ Og ekki fékk Jón konu sína aftur, hún var komin í bland við tröllin.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jón Árnason (1954-1961). Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. Bókaútgáfan Þjóðsaga.
  • „Hæsta standberg landsins frá sjó. Morgunblaðið 8. nóvember 1987“.