Sléttuhlíð
66°01′11″N 19°23′13″V / 66.01972°N 19.38694°V
Sléttuhlíð er byggðarlag við austanverðan Skagafjörð og nær frá Höfðahólum og út til Stafár.[1] Þar gengur ströndin töluvert til vesturs um leið og fjöllin sveigja heldur til austurs þannig að undirlendið breikkar að mun frá því sem er á utanverðri Höfðaströnd. Láglendið er þó ekki slétt því þar er langt fell, 173 m á hæð, á milli tveggja aflangra stöðuvatna sem heita Kappastaðavatn og Sléttuhlíðarvatn. Á milli fellsins og fjallanna er láglend kvos, fremur gróðursæl, og þar eru nokkrir bæir, þar á meðal kirkjustaðurinn Fell. Þar var Hálfdan Narfason prestur fyrr á öldum og er sagður hafa verið göldróttur.[2] Vestan við Fellið er eyðibýlið Fjall. Þar fæddist Sölvi Helgason (Sólon Íslandus).[3]
Tveir dalir ganga inn í fjallgarðinn upp frá Sléttuhlíð. Sunnar er Hrolleifsdalur, sem sagður er kenndur við landnámsmanninn Hrolleif og er nú allur í eyði, og Skálárdalur, sem aldrei hefur verið byggður. Úr honum rennur Skálá og fellur í Hrolleifsdalsá, sem bugðast til sjávar sunnarlega í sveitinni.[4]
Sléttuhlíð var áður í Fellshreppi en er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði.[5][6]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Sléttuhlíð – Iceland Road Guide“. Sótt 4. september 2024.
- ↑ „Fellskirkja“. web.archive.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2021. Sótt 4. september 2024.
- ↑ „Sölvi Helgason, ens“. Safnasafnið (bresk enska). Sótt 4. september 2024.
- ↑ „Hrolleifsdalsá - NAT ferðavísir“. 14. maí 2021. Sótt 4. september 2024.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. september 2024.
- ↑ Hjördís Erna Sigurðardóttir (september 2016). „Örnefni, Örnefnanefnd, sameinuð sveitarfélög og bæjanöfn: Vald og saga örnefnastýringar“ (PDF). Háskóli Íslands.