Fara í innihald

Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leifar hvalstöðvarinnar á Sólbakka í Önundarfirði.

Lengst af voru hvalveiðar við Ísland í atvinnuskyni aðeins stundaðar af erlendum þjóðum. Í upphafi 17. aldar voru það Baskar og Hollendingar. Reistu þeir meðal annars hvalstöð á Strákatanga, en þegar Baskar fundu upp þá aðferð að geta brætt lýsi um borð í hvalskipum var ekki lengur þörf á að hafa hvalstöðvar. Eftir það hættu erlendir hvalveiðimenn að hafa viðkomu á Íslandi uns nýtt tímabil hvalveiða við Ísland hófst á síðari hluta 19. aldar með veiðum Norðmanna.[1]

Þó nokkrar þjóðir reyndu að skutla hvali kringum Ísland, t.d Bandaríkjamenn og Danir, en svo fór að Norðmenn voru eina þjóðin sem veiddu hvali við Ísland til langframa. Ástæðan var sú að Norðmaðurinn Svend Foyn tvinnaði saman hraða gufubáta og þá aðferð að pumpa lofti í hvali eftir að þeir höfðu verið skutlaðir svo að þeir flutu. Af þeim sökum var hægt að veiða hraðsyndari og stærri hvali en áður.[2]

Um leið og norsku hvalveiðimennirnir byrjuðu að skutla hvali við Ísland við lok 19. aldar hófust talsverðar deilur meðal Íslendinga, einkum á þeim svæðum þar sem Íslendingar áttu mikið undir fiskveiðum.[3] Á Íslandi var gömul þjóðtrú ríkandi að hvalurinn hegðaði sér eins fjárhundur sem smalaði síldinni saman úti á hafi og ræki hana inn á firði þar sem mögulegt væri fyrir Íslendinga að veiða hana.[4]

Samhliða aukinni þjóðerniskennd meðal Íslendinga í upphafi 20. aldar jókst andstaðan gegn hvalveiðum Norðmanna.[5] Í kjölfarið bönnuðu Íslendingar stórhvalaveiðar árið 1915; enda þótti fullsýnt að tengsl væri milli hval- og fiskveiða. Meðal annnarra röksemda við frumvarpið var sú að að bannið myndi leyfa stofninum að jafna sig svo að Íslendingar gætu sjálfir byrjað að skutla hvali er fram liðu stundir.[6]

Á meðan norsku hvalveiðimennirnu stunduðu veiðar við Íslandi áttu þeir eftir að setja mark sitt á daglegt líf Íslendinga, t.d. hvað varðar skemmtanalíf.

Aðalgrein: Áhrif erlendra hvalveiðimanna á íslenskt samfélag, 1600-1915

Hvalstöðvar Norðmanna á Vestfjörðum

[breyta | breyta frumkóða]

Norskir hvalveiðimenn tóku fyrstu skóflustunguna fyrir grunni hvalstöðvar á Langeyri á Vestfjörðum árið 1883 og rúmum tíu árum síðar höfðu þeir reist alls átta stöðvar þar í kring. Skömmu eftir aldamótin 1900 höfðu þeir þó gengið svo nærri hvalastofninum við Vestfirði að þeir færðu sig til Austurlands í leit nýrra miða.[7]

Dvergasteinseyri

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af hvalstöð Norðmanna á Dvergasteinseyri í Álftafirði. Minjar hvalveiðimanna eru merktar með grænum lit, leifar Barkskips með ljósgráum og nútímamannvirki með dökkgráum.

Norðmenn reistu hvalstöð á Dvergasteinseyri í Álftafirði árið 1896 og veiddu þar hvali til 1903.[8] Stöðin er nú tóftir einar, en eftir að fornleifaskráning var gerð á svæðinu voru níu mannvirki tengd setu hvalveiðimanna skráð, eins og smiðja og bræðsla. Alls voru liðlega 150 gripir skráðir á landi og 30 í sjó. Stærsti gripaflokkurinn var hvalbein, en einnig var mikið magn leirkers, eins og brot af matardiskum, skráð.[9]

Í forgrunni sjást leifar stromps sem tilheyrði bræðslu hvalveiðimanna á Dvergasteinseyri. Horft í suðaustur.

Út frá niðurstöðum fornleifaskráningarinnar hefur tekist að fá skýrari mynd af athöfnum hvalveiðimanna á Dvergasteinseyri. Hvalveiðimennirnir reistu smiðju sunnan á eyrinni, og fjarri öðrum mannvirkjum, til þess að varna því að eldur brytist út um hvalstöðina. Var bræðslunni fundinn staður norðvestan megin á eyrinni og með fram norðurfjörunni verkaði fólk hvali. Hvalveiðimennirnir hirtu aðeins þá hluta hvalsins sem hægt var að nota til lýsisgerðar og skilið afganginn af þeim í fjörunni sem ekki nýttist til þess háttar framleiðslu. Við bryggjuna norðan megin á eyrinni lágu skip við höfn. Eftir hverja veiðiferð þurftu hvalveiðimennirnir að hreinsa skipin og hentu þeir öllu ruslinu sem hlóðst upp í ferðinni beint út í sjó, til dæmis áfengisflöskum og steinkolum. Austast á eyrinni voru skráðar minjar um bryggju, og tvær verkfærageymslur í grennd, svo sennilega hefur skipakví verið þar. En oft og tíðum skemmdust hvalskip í veiðiferðum. Því var algengt að hafa skipakví svo hægt væri á að lagfæra skipin á stuttum tíma til þess að senda þau sem fyrst aftur til veiða.[10]

Höfðaoddi

[breyta | breyta frumkóða]
Uppmældar minjar á Höfðaodda. Gráar byggingar eru teikningar af hvalstöðinni eftir danska kortagerðarmenn upp úr aldamótunum 1900.[11] Minjar skráðar í fornleifaskráningu eru bleikar.

Hvalveiðifélag frá Noregi, byggði hvalstöð á Höfðaödda í Dýrafirði árið 1893 og endurnefndu þeir svæðið Framnes. Flutti félagið starfsemi sína til Mjóafjarðar á Austurlandi árið 1903.[12]

Hvalstöðin var nær öll eyðilögð vegna túnasléttunar í upphafi 20. aldar. Þrátt fyrir það þykir ljóst eftir að fornleifaskráning var gerð á svæðinu að grunnsævið austan megin tangans var notað sem geymslusvæði fyrir hvali áður en skorið var í þá og þeir bræddir í bræðslunni sem var fundinn staður yst á tanganum. Vestan við bræðsluna var bryggja reist þar sem flutningsskip hvalveiðimanna gátu náð í lýsið og farið með á markaði í Evrópu. Við bryggjuna voru tvær geymslur reistar, þar af ein kolageymsla.[13]

Hvalstöðin á Sólbakka við Önundarfjörð var byggð árið 1889 og var ein stærsta hvalstöðin sem norsku hvalveiðimennirnir reistu á Vestfjörðum. Árið 1901 varð stöðin eldi að bráð þegar það kviknaði út frá lýsislampa. Fyrir eldsvoðan á Sólbakka höfðu eigendur hvalfélags Sólbakka reist hvalstöð á Asknesi í Mjóafirði á Austurlandi og eftir brunann á Sólbakka árið 1901 voru allar veiðar fyrirtækisins stundaðar frá Austurlandi.[14]

Hvalstöðin á Sólbakka var að mestu eyðilögð fyrir lagningu þjóðvegar á 20. öld. Aðeins múrsteinsstrompur og gufuketill eru nú eftir af hvalstöðinni.[15]

Uppsalaeyri

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af uppmældum minjum á Uppsalaeyri. Minjar hvalveiðimanna merktar með bleiku og sumarhúsið dökkgrátt.

Hvalstöðin á Uppsalaeyri í Seyðisfirði var reist árið 1897 og meðal eiganda var Ágeirsverslunin á Ísafirði og var í notkun til 1904 er hvalveiðimenn fluttu austur.[16]

Uppsalaeyri við aldamótin 1900.

Fornleifaskráning sýndi að mikil umsvif höfðu verið á eyrinni þrátt fyrir að hún hafi verið með aflaminnstu hvalstöðvum Norðmanna. Í heildina voru sex mannvirki norsku hvalveiðimannanna skráð, þar á meðal leifar tunnapalla, en á þeim voru hvallýsistunnur geymdar. Rúmlega 130 gripir voru skráðir á landi og 40 neðansjávar. Iðulega var um bygginarleifar og hvalbein að ræða.[17]

Fornleifaskráningin leiddi í ljós að verkun hvala hafi sennilega farið fram á fjörunni sunnan sumarhússins. Frá fjörunni var stutt að fara í bræðsluna sem var byggð á þeim sem stað sem sumarbústaðurinn stendur nú. Þegar hvallýsið var tilbúið hefur það verið sett í tunnur og geymt á pöllum rétt vestan bræðslunar. Syðst á eyrinni hafði verkfærageymslu ásamt skipakví verið valinn staður.[17]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson. (2011). Hvalveiðar útlendinga á 17. öld: Fornleifarannsóknir á Strákatanga 2005-2010, bls. 152-153.
  2. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 45-46.
  3. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 20.
  4. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 124.
  5. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 21.
  6. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 134.
  7. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 19.
  8. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 55.
  9. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 7-10.
  10. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 25.
  11. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 71.
  12. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 54.
  13. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 24-25.
  14. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 53.
  15. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 24.
  16. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 55-56.
  17. 17,0 17,1 Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, bls. 14-18.

Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld[óvirkur tengill]. Bolungarvík: Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson. (2011). Hvalveiðar útlendinga á 17. öld: Fornleifarannsóknir á Strákatanga 2005-2010. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2011, 145-186.

Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Í Bergsteinn Jónsson (ritstj.), Studia historica: 8. bindi. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.