Fara í innihald

Hressingarskálinn

Hnit: 64°08′50″N 21°56′15″V / 64.147320°N 21.937420°V / 64.147320; -21.937420
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hressó)

64°08′50″N 21°56′15″V / 64.147320°N 21.937420°V / 64.147320; -21.937420

Hressingarskálinn við Austurstræti 20
Kort af staðsetningu Hressingarskálans við Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur

Hressingarskálinn, Skálinn eða Hressó er kaffihús og skemmtistaðurAusturstræti 20 í Reykjavík. Húsið var reist árið 1805 og er með elstu húsum borgarinnar. Upphaflega var það kallað „svenska húsið“ af því það var flutt inn tilhöggvið frá Svíþjóð. Rekstur veitingaskála í húsinu hófst árið 1932 þegar Björnsbakarí (stofnað 1900) leigði húsið undir starfsemi Hressingarskálans sem áður hafði verið rekinn í Pósthússtræti, í húsi Reykjavíkurapóteks, frá 1929.

Saga hússins

[breyta | breyta frumkóða]

Svenska húsið og landfógetahúsið

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega var húsið að Austurstræti 5 (nú 20) reist að undirlagi Rentukammersins sem embættisbústaður fyrir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu milli húss stiftamtmanns sem var reist 1802 og bakarís sem O. P. Christian Möller kaupmaður hafði reist. Húsið var flutt inn tilhöggvið frá Svíþjóð og var því almennt kallað „svenska húsið“.

Fyrsti íbúi hússins var Hans Wöllner Koefoed sýslumaður. Ólafur Finsen var skipaður sýslumaður 1821 og flutti í húsið. Hann keypti það síðan af Rentukammerinu og sömuleiðis bakaríið og bjó þar til dauðadags 1836. Síðar keypti Kristján Kristjánsson landfógeti húsið af ekkju Finsens og síðan keypti Vilhjálmur Finsen landfógeti húsið af honum. Árni Thorsteinsson, eftirmaður hans, keypti aftur húsið af honum og bjó í því til dauðadags 1907. Á hans tíma var tekið að kalla húsið „landfógetahúsið“. Árni vann ýmsar breytingar á húsinu og stækkaði það. Í gamla bakaríinu innréttaði hann skrifstofu og hann hóf trjárækt í garðinum bak við húsið. Eftir lát Árna bjó sonur hans, Hannes Thorsteinsson bankastjóri, í húsinu til dauðadags 1931. [1]

1931 keypti íslenska ríkið húsið og skipti á því sama ár við KFUM og K gegn Bernhöftsbakaríi í Bankastræti (þar sem nú er veitingahúsið Lækjarbrekka), en þar hugðist félagið reisa glæsilegar höfuðstöðvar. Félagið fékk vilyrði fyrir byggingarétti á allri lóðinni við Austurstræti fyrir hús sem væri á stærð við Reykjavíkurapótek, en ekkert varð af þeim framkvæmdum af ýmsum ástæðum.

Hressingarskálinn

[breyta | breyta frumkóða]

Björn Björnsson, konditormeistari og stórkaupmaður, stofnaði og rak Hressingarskálann á fyrstu árum hans. Hressingarskálinn var í fyrstu í húsakynnum Reykjavíkurapóteks, þar sem síðar var snyrtivöruverslunin Hygea, Pósthússtræti 7. Björn Björnsson fékk erlendan mann til þess að setja upp kaffivél í Hressingarskálanum að hætti alþjóðlegra kaffihúsa. [2] Árið 1932 leigði Björn landfógetahúsið undir rekstur skálans. Þar stillti hann út tertum og kökum og seldi kaffi og ís en framhlið hússins hafði þá verið breytt til samræmis við breytt hlutverk. 1934 tók Hressingarskálinn hf. við rekstri kaffihússins og 1935 flutti Björn til London. Í Síðari heimsstyrjöld og mörg ár eftir var Hressingarskálinn vinsæll samkomustaður myndlistarmanna og ljóðskálda.

1957 og 1958 voru aftur gerðar breytingar á húsinu, gluggum á framhlið var breytt og skáli reistur suður úr húsinu. Að innan var húsið innréttað upp á nýtt. Enn voru gerðar breytingar á húsinu árið 1985 þegar aftur var tekinn upp veitingarekstur í garðinum, sem þá hafði lagst af um skeið.

Á 9. og 10. áratugnum var lengi rekinn í húsinu vinsæll skemmtistaður á kvöldin aðgreindur frá kaffihúsinu á daginn, oft af öðrum rekstraraðilum, en þá voru vínveitingar ekki leyfðar fyrir klukkan sex síðdegis. 1991 voru húsið og reksturinn síðan auglýst til sölu en þá hafði KFUM hafið að reisa félagsheimili við Holtaveg í Laugardal. Hætt var við söluna í það skiptið. Árið 1994 var rætt um að Hressingarskálinn mætti muna sinn fífil fegri og eigendur hússins ákváðu að leigja það undir McDonald's-veitingastað. Í tilefni af 60 ára afmæli Hressingarskálans hf. og í skugga yfirvofandi breytinga var gefið út afmælisrit, Ljóð og laust mál: 60 ára afmæli Hressingarskálans, ritstýrt af Benedikt Lafleur, sem innihélt ný og gömul ljóð og smásögur eftir ýmsa höfunda.

16. júní 1995 opnaði svo McDonald's-staður sem var rekinn í húsinu til 2003. Veitingastaðurinn var opinn til kl. 10 á kvöldin en seldi síðan mat í gegnum lúgu fram á nótt. Frá 1996 var miðstöð miðbæjarstarfs KFUM og K á svokallaðri „loftstofu“ á efri hæð hússins. Árið 2001 var gamla bakaríið aftur aðskilið frá húsinu og KFUM og K hóf þar rekstur lítils kaffihúss, Ömmukaffis, sem var bæði reyklaust og áfengislaust. 2002 seldi KFUM svo húsið og 2003 var aftur opnaður veitinga- og skemmtistaður með nafninu Hressingarskálinn í Austurstræti 20 eftir gagngerar breytingar á innréttingum. Ömmukaffi var rekið áfram í bakaríshúsinu til ársins 2006.

Þegar bruninn í Austurstræti átti sér stað 18. apríl 2007 var lengi óttast um að eldurinn bærist í Hressingarskálann, en húsið slapp vel og opnaði aftur næsta dag.

Eftir að reykingabann gekk í gildi á skemmtistöðum og kaffihúsum 1. júní 2007 hafa garðurinn og pallurinn aftan við húsið reynst hafa talsvert aðdráttarafl fyrir reykingamenn.

2008 opnaði sportbarinn Bjarni Fel í bakaríshúsinu þar sem Ömmukaffi var áður til húsa, en þá hafði enginn rekstur verið í húsinu um nokkurt skeið. Bjarni Fel nýtir hluta garðsins við Hressingarskálann.

  1. Árni Óla, „Gömul hús í Reykjavík: Svenska húsið“, Lesbók Morgunblaðsins, 20. tbl., 19. ágúst, 1962, s. 6. (Tímarit.is)
  2. Pétur Pétursson, „Reykjavíkurrúnturinn og kaffidrykkja í miðbæ Reykjavíkur“, Morgunblaðið, 16. júlí 2000, s. 10 (B). (Tímarit.is)