Vilhjálmur Finsen
Vilhjálmur Finsen (7. nóvember 1883 – 11. október 1960) var blaðamaður og fyrsti ritstjóri Morgunblaðsins og einn af stofnendum þess, ásamt Ólafi Björnssyni.
Vilhjálmur Finsen var sonur Óla Finsen, sem lengi var póstmeistari í Reykjavík, af hinni frægu Finsensætt, sem kennir sig við nafn Finns Jónssonar Skálholtsbiskups. Vilhjálmur varð stúdent 1902 og lagði stund á málanám við Kaupmannahafnarháskóla en tók jafnframt að rita fréttapistla frá Íslandi í dönsk blöð sama vetur og hann kom til Hafnar. Árið 1904 varð Vilhjálmur íslenskur fréttaritari við Politiken. Hann var starfsmaður hjá Marconi-félaginu 1906 og tók próf í loftskeytafræði við skóla félagsins í Liverpool í apríl 1907 og varð fyrstur manna á Norðurlöndum til þess að taka loftskeytapróf. Um nokkurra ára skeið starfaði hann hjá Marconi-félaginu og ferðaðist víða á vegum þess. Á þessum árum stundaði hann jafnframt blaðamennsku. Hinn 2. nóvember 1913 stofnaði hann Morgunblaðið ásamt Ólafi Björnssyni ritstjóra en lét af ritstjórn blaðsins í árslok 1921. Þá fluttist hann til Noregs og starfaði meðal annars við stórblaðið Tidens Tegn. Vilhjálmur varð sendiherra í Svíþjóð og síðar í Þýskalandi en síðustu árin helgaði hann sig einkum blaðamennskunni og safnaði greinum sínum í bók. Á vegi hans varð margt merkra manna og segir hann frá kynnum sínum við þá í ævisögu sinni Alltaf á heimleið. Blaðaviðtöl átti hann meðal annars við Edison, Amundsen og Caruso.