Fara í innihald

Hrafninn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndskreyting við kvæðið eftir Édouard Manet.

Hrafninn er söguljóð eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis. Þetta viðkvæði hrafnsins hefur verið þýtt á ýmsa vegu, meðal annars „Aldrei meir“ (Einar Benediktsson), „Aldrei - kró“ (Matthías Jochumsson), „Enginn er“ (Jochum Eggertsson) og „Aldrei“ (Helgi Hálfdanarson).

Saga Hrafnsins

[breyta | breyta frumkóða]

Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmissa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:

„Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.“

Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geypihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá við faðerni kvæðisins og eftir það var nafn hans prentað undir því.

Íslenskar þýðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Til eru að minnsta kosti sjö[1] þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Sigurjón Friðriksson (1937), Jochum Eggertsson (1941), Þorstein frá Hamri (1985), Gunnar Gunnlaugsson (1986), Pál V.G. Kolka og Helga Hálfdánarson.

  1. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. september 2020.
  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.