Fara í innihald

Hof (Skagaströnd)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hof á Skagaströnd)

Hof er bær, kirkjustaður og áður prestssetur utarlega á Skagaströnd. Þar var áður prestakall sem náði yfir ytri hluta strandarinnar og bæina yst á Skaga. Útkirkja var á Spákonufelli. Hofsprestakall var lagt niður 1907 og sameinað Höskuldsstaðaprestakalli. Nú tilheyrir Hofskirkja Skagastrandarprestakalli.

Á Hofi eru gamlar rústir sem kallast Goðatóftir og er sagt að kunni að vera af hofi. Engar sagnir eru þó til um blót þar eða goða og raunar er ekkert vitað um landnám og búsetu á ströndinni til forna því að eyða er í Landnámabók á milli þess sem sagt er frá landnámi Holta á Holtastöðum í Langadal og landnámi Hólmgöngu-Mána, sem náði að Fossá, norðan við Hof.

Skammt norðan við Hof er Króksbjarg og nær út að Kálfshamarsvík, um 10 kílómetra leið, undir ýmsum nöfnum. Björgin eru 40-50 metra há og liggur vegurinn víðast á bjargbrúninni.

Hof þótti fremur rýrt brauð og ekki eftirsóknarvert og voru flestir prestar þar aðeins fáein ár, á meðan þeir biðu eftir að fá betra embætti. Einn þeirra sem lengst sat þar var séra Árni Illugason, sem var prestur á Hofi 1796-1825. Hafði hann áður beðið í 10 ár eftir að fá embætti og síðan verið í átta ár prestur í Grímsey, sem var enn verra brauð en Hof. Sonur hans var Jón Árnason þjóðsagnasafnari, sem fæddist á Hofi árið 1819.

Núverandi Hofskirkja er timburkirkja, múrhúðuð, reist árið 1876. Hún er turnlaus og ekkert söngloft í henni. Í kirkjunni er gömul altaristafla og ævagamall prédikunarstóll.

  • „Faðir þjóðsagnasafnarans. Lesbók Morgunblaðsins, 10. febrúar 1974“.