Hið íslenzka reðasafn
Hið íslenzka reðasafn, staðsett á Hafnartorgi í Reykjavík, hýsir heimsins stærstu sýningu af reðrum. Safnið samanstendur af 280 sýningargripum frá 93 dýrategundum og inniheldur 55 hvalareður, 36 selareður og 118 reður af landdýrum, þar af eru sum sögð vera af huldufólki og tröllum. Þann 8. apríl 2011 tók safnið formlega við fyrsta mannsreðrinu sínu, eftir lát Páls Arasonar þann 5. janúar sama ár. Hann hafði áður heitið að gefa safninu kynfæri sín eftir andlát sitt. .[1]
Safnið var stofnað árið 1997 af Sigurði Hjartarsyni, þá kennara á eftirlaunum, og er nú rekið af syni hans, Hirti Gísla Sigurðssyni. Uppsprettan er áhugi Sigurðar á getnaðarlimum sem átti rætur að rekja til barnæsku hans þegar hann fékk svipu að gjöf er gerð var úr nautsreðri. Hann fékk líffærin úr íslenskum dýrum víðs vegar að, frá 170 sm framenda af getnaðarlimi steypireyðs til 2 mm limbeins hamsturs, sem eingöngu er sjáanlegt með stækkunargleri. Safnið segir að úrval sitt innihaldi reður álfa og trölla þrátt fyrir að lýsingar veranna í þjóðsögunum hermi að þær séu ósýnilegar, og geta því safngestir ekki borið þá gripi augum. Safnið sýnir jafnframt ýmis verk gerð úr kynfærum, til að mynda lampaskerma úr nautaeistum.
Vinsældir safnsins eru slíkar að það hefur orðið að vinsælum aðkomustað meðal ferðamanna og skipta gestir þess þúsundum á hverju ári og hefur það fengið athygli heimspressunnar, þar á meðal í kanadísku heimildarmyndinni The Final Member, sem fjallar um leiðangur safnsins til að verða sér úti um mannsreður. Samkvæmt safninu er því að þakka að nú sé „unnt að stunda reðurfræði á skipulegan og vísindalegan hátt“.[2]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Stofnandi safnsins, Sigurður Hjartarson, starfaði sem kennari og skólastjóri í 37 ár, og kenndi þá aðallega sögu og spænsku í Menntaskólanum við Hamrahlíð áður en hann fór á eftirlaun.[2] Á barnsaldri átti hann nautsreður sem hann fékk gefins sem svipu. Hann hóf reðasöfnun sína eftir að vinur hans heyrði söguna af nautsreðrinu á árinu 1974 og gaf honum fjögur ný eintök, þar af þrjú sem Sigurður gaf síðan áfram til vina sinna. Kunningjar hans á hvalstöðvum byrjuðu að færa honum hvalareður og stækkaði þá safnið út frá því og óx frekar út frá gjöfum og kaupum víðs vegar á landinu.
Líffæri sveitardýranna komu frá sláturhúsum, á meðan sjómenn útveguðu þau sem voru af selum og smærri hvölum. Reður stærri hvalanna komu frá hvalstöðvum þar til fljótlega eftir að Alþjóðahvalveiðiráðið setti alþjóðlegt bann á hvalveiðar í viðskiptatilgangi árið 1986. Sigurður gat þó haldið áfram að safna hvalareðrum með því að notfæra sér þau 12-16 skipti á ári sem hvalir reka á strönd. Hann hefur einnig safnað reðri ísbjarnar sem sjómenn skutu eftir að þeir sáu dýrið á reiki á hafís á Vestfjörðum.
Sigurður hefur notið aðstoðar ættingja sinna en þó ekki án neyðarlegra atvika. Þorgerður dóttir hans minnist þess að hún var einu sinni send í sláturhús til að taka á móti væntanlegum safngrip einmitt þegar vinnufólkið var í hádegishléi. Einhver spurði hana hvað væri í körfunni og hún svaraði að það væri frosið geitareður. Eftir atvikið sagðist hún aldrei ætla að safna fyrir hann aftur. Sigurður segir að söfnun hans sé eins og hver önnur söfnun og henni sé aldrei lokið þar sem nýir og betri safngripir séu alltaf í boði.
Í upphafi var safnið geymt á skrifstofu Sigurðar í menntaskólanum þar til hann fór á eftirlaun. Hann ákvað, frekar sem tómstundargaman en atvinnu, að sýna safn sitt opinberlega. Hann fékk 200 þúsund króna styrk frá Reykjavíkurborg til að opna safnið í ágúst 1997. Árlegur gestafjöldi safnsins hafði aukist í 5.200 árið 2003 og af þeim voru 4.200 erlendis frá. Hann bauð safnið til sölu árið 2003 en bauð þó Reykjavíkurborg safnið að gjöf árið 2003.[3] Hins vegar fékk hann ekki fjárhagslegan stuðning frá ríkinu né borginni. Þegar hann hætti árið 2004 hafði hann ekki efni á að greiða leiguna fyrir aðstöðu safnsins.
Eftir að hann fór á eftirlaun flutti hann til Húsavíkur og tók safnið með sér. Safnið var geymt í lítilli byggingu sem var áður veitingastaður. Hann merkti bygginguna með stóru reðri úr við og setti reður úr steini fyrir utan húsið. Íbúar bæjarins höfðu efasemdir um safnið en sættu sig við það eftir að þeir höfðu verið sannfærðir um að safnið væri ekki klámfengið.[1]
Á árinu 2011 gaf Sigurður syni sínum, Hirti Gísla Sigurðssyni, safnið. Í kjölfarið flutti Hjörtur safnið til Laugavegar 116 í Reykjavík.[4] Húsnæðið á Húsavík hýsir nú Könnunarsögusafnið á Húsavík. Kauptilboði frá auðugum Þjóðverja er hljóðaði upp á 30 milljón krónur var synjað og tillögu um að flytja það til Bretlands var hafnað, þar sem Hjörtur sagði að safnið yrði að vera á Íslandi.[5] Hann hugðist einnig halda áfram að afla nýrra sýningargripa. Safnið er nú flutt aftur og opnaði með mikið uppfærða sýningu ásamt kaffihúsi á Hafnartorgi þann 15. júní 2020.
Samkvæmt Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni, mannfræðingi hjá Háskóla Íslands, er umburðarlyndi Íslendinga gagnvart safninu vísir að þeim breytingum sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi síðan á 10. áratug 20. aldarinnar, þegar nýkjörin nýfrjálshyggju-ríkisstjórn ræktaði nýtt hugarfar gagnvart afþreyingu, sköpun og ferðamennsku sem kom í kjölfarið opinberlega á framfæri nýjum hugmyndum. Hann hefur ritað bók um mikilvægi safnsins á íslenska menningu í bók sinni, Phallological museum.[6]
Safneignir
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt vef safnsins á það alls um 300 safngripi frá 95 dýrategundum. Úrvalið er frá stærstu reðrum dýraríkisins til þeirra smæstu. Stærsti sýningargripurinn er 170 sm langur hluti af reðri steypireyðs er vegur 70 kg, sem Iceland Review vísar til sem hins raunverulega Moby Dick.[7] Sýningargripurinn er eingöngu hluti reðsins og hefði allt líffærið í heilu lagi verið um það bil 5 metra langt og vegið 350-450 kg. Smæsti sýningargripurinn er limbein hamsturs og þyrfti stækkunargler til að bera það augum, enda einvörðungu tveggja millimetra langt.[8] Sigurður vísar til safnsins sem afurð 37 ára reðraleitar og sagði að einhver þurfti að gera það.
Safnið hefur einnig þjóðfræðideild er sýnir reður dulrænna vera; limaskráin listar safngripi frá álfum, tröllum, nykrum, og Snæfjalladraugnum.[9] Sigurður segir að álfareðrin, sem limaskráin segir að sé „[ó]venju stórt og gamalt“, væri í uppáhaldi hjá honum. Það er ekki til sýningar þar sem íslenskar þjóðsögur segja að álfar og tröll séu ósýnileg.[10] Deildin inniheldur þar að auki reður marbendils, fjörulalla, flæðarmúsar (sögð „[draga] eiganda sínum peninga úr sjó“), og jólasveins er fannst látinn að rótum Esjunnar árið 1985 og síðan gefið safninu árið 2000 af fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur.[9]
Vefur safnsins kveður á um að safnið geri fólki „unnt að stunda reðurfræði á skipulegan og vísindalegan hátt“, veitandi nægan efnivið til fræða sem „lítt verið sinnt á Íslandi, nema þá sem afleggjara annarra fræða, t.d. sagnfræði, listfræði, sálfræði, bókmennta og ýmissa lista, svo sem tónlistar og balletts“.[2] Safnið miðar að því að safna reðrum allra spendýra á Íslandi. Það sýnir jafnframt listgripi úr reðrum og reðurtengdum hlutum eins og lampaskermum gerðum úr nautaeistum. Aðrir gripir spanna frá ágreyptri mynd frá 18. öld sem sýnir umskurð Jesú Krists til 20. aldar reðursnuðs úr plasti. Meirihluti gripanna hefur verið gefinn safninu, og eini sýningargripurinn sem hefur verið keyptur hingað til er fílareður sem er næstum eins metra langt. Reðrin eru annaðhvort geymd í formaldehýði og sýnd í krukkum eða hafa verið þurrkuð og hengd eða fest á veggi sýningarrýmisins.
Sigurður nýtti sér fjölda aðferða til að geyma reðrin, þar á meðal geymslu í formaldehýði, böðun, þurrkun, uppstoppun og söltun.[11] Einu sérstaklega stóru nautareðri hafði verið breytt í göngustaf.[12] Margir sýningargripanna eru lýstir með lömpum sem Sigurður hafði búið til úr hrútaeistum.[11] Sigurður hafði einnig skorið út viðarreður sem finna má í kringum marga sýningargripi safnsins,[1] og klæddist jafnframt slaufu skreyddri reðurmyndum við sérstök tilefni.[10]
Safnið er opið alla daga og í júlí 2011 var árlegi gestafjöldi safnsins þá kominn upp í 11 þúsund. 60% gesta safnsins eru sagðir vera kvenkyns en samkvæmt Rough Guide to Iceland roðnar starfsfólk upplýsingamiðstöðva vandræðalega þegar það fær fyrirspurnir um safnið.[13] Gestabók safnsins inniheldur athugasemdir eins og „I've never seen so many penises–and I went to boarding school!“ (gestur frá Nýja Sjálandi), „They're bigger in the USA“ (gestur frá Wisconsin fylki) og „Is there a vagina museum?“.[14] Sigurður hafði þá svarað því að hann safnaði eingöngu karlkyns líffærinu og að einhver annar yrði að sjá um hina söfnunina. Þá sagðist hann hafa áhuga á því að vita hvernig farið yrði að því að geyma leggöngin. Hann taldi að leggöngin séu betri á meðan þau séu á lífi.[15] (Í raun er til safn sem heitir „Museum of Vaginal Imagination“ í Rotterdam í Hollandi.[16])
Mannsreður
[breyta | breyta frumkóða]Safnið hafði leitað eftir mannsreðri í fjölda ára. Sigurður hafði þá fengið mannseistu og forhúð frá tveimur aðilum;[17] forhúðin var gjöf frá Landspítalanum eftir umskurð í neyðartilfelli.[13] Safnið hefur einnig höggmyndir byggðar á silfurstrákunum 15, og voru þær því gerðar úr silfri. Sigurður fullyrðir að þótt reðrin séu ekki sýnd í sömu röð og leikmennirnir á ljósmyndinni sem fylgir með, myndu makar þeirra þekkja þau.[1] Samkvæmt Slate bjó dóttir Sigurðar, Þorgerður, þær til og voru þær byggðar á reynslu hennar frekar en þekkingu á liðinu. Markmaður liðsins neitar því að höggmyndirnar séu gerðar eftir mótum.[14]
Hingað til hefur safnið fengið vilyrði fjögurra manna — Íslendingi, Þjóðverja, Bandaríkjamanni og Breta — um að fá reður þeirra. Kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Zach Math nefndi að Bandaríkjamaðurinn, Tom Mitchell, sé venjulegur náungi en búi yfir persónueinkenni þar sem hann heldur að reðrið hans sé aðskildur hluti líkama hans. Hann hafi þrá um að hann vilji hafa heimsins frægasta reður.[18] Samkvæmt Sigurði vildi Mitchell láta fjarlægja af sér reðrið á meðan hann væri á lífi og heimsækja síðan safnið.[10] Mitchell sendi safninu mót af því sem myndi þjóna sem staðgengill þar til af því verður,[8] ásamt ljósmynd af því í gervi jólasveins og Abraham Lincoln.[19] Gefandinn tattúveraði bandaríska fánann á það til að gera það meira heillandi.[18] Segist hann alltaf hafa fundist það svalt að reðrið hans yrði fyrsta sanna stjarnan í reðurheiminum og gerði það að stjörnu í hans eigin teiknimyndasögu: Elmo: Adventures of a Superhero Penis.[20]
Íslenski gefandinn var Páll Arason, 95 ára Akureyringur, og var sagður hafa verið kvennabósi á yngri árum. Hann langaði að gefa reðrið sitt til safnsins til að tryggja sína ótímabundnu frægð.[8] Sigurður sagði að þrátt fyrir að gefandinn væri 95 ára hefði hann haldist virkur, bæði lóðrétt og lárétt.[21] Hins vegar sagðist gefandinn hafa áhyggjur af því að reðrið sitt væri að minnka með aldrinum og að það myndi ekki verða almennilegur sýningargripur.[8] Reðrið hans öðlaðist forgang fram yfir aðra erlenda gefendur í samræmi við markmið safnsins um að sýna líffæri íslenskra spendýra. Sigurður sagði að ekki væri auðvelt að fjarlægja og geyma mannsreður og eru gefendurnir og læknarnir sammála um að það verði að vera fjarlægt á meðan líkaminn er volgur. Síðan þarf að tæma blóðið úr því og pumpa það upp. Ef það kælist of mikið er ekkert hægt að gera, svo gefandinn vill að það verði fjarlægt á meðan það er volgt og hljóti viðeigandi meðferð svo það geti verið geymt af virðingu.[11]
Páll lést síðan 5. janúar 2011 og var reðrið hans fjarlægt með skurðaðgerð svo það gæti verið afhent safninu. Aðgerðin heppnaðist ekki og varð reðrið að samanskroppnum grá-brúnum massa. Sigurður sagði að hann hefði átt að teygja það og sauma það aftur til að halda því í nokkurn veginn sömu stöðunni. Hins vegar hafi það farið beint í formeldahýðið. Þrátt fyrir að hafa verið vonsvikinn með atvikið sagðist hann vera vongóður um að finna yngra, stærra og betra eintak fljótlega.[1] Algengustu viðbrögð gesta sem sjá mannsreðrið er að finnast það gamalt og samanskroppið og karlmenn segjast vona til þess að sitt reður muni ekki líta þannig út þegar þeir verða eldri.[22] Sigurður sagðist hafa íhugað að gefa sitt eigið reður til safnsins við andlát sitt en sagði að það færi eftir eiginkonu sinni. Ef hún létist fyrst, þá myndi reðrið hans enda á safninu. Ef hann létist áður, þá myndi eiginkona hans ráða. Hún gæti neitað.[1]
Bandaríski handritshöfundurinn og leikarinn Jonah Falcon, þekktur fyrir að hafa stórt reður, fékk boð frá safninu í gegnum The Huffington Post um að gefa reður sitt eftir andlát sitt. Í maí 2014 var gefin út tilkynning um að Jonah hefði tekið boðinu og hann hefði mælt með því að reðrið sitt væri sýnt við hliðina á búrhval með áletruninni „Jonah and the whale“ (íslenska: Jónas og hvalurinn), eftir biblíusögu með sama nafni.[23]
Árið 2022 fékk safnið afsteypu af getnaðarlim tónlistarmannsins Jimi Hendrix eftir að listakonan, Cynthia Albritton, sem gerði hana lést. [24]
Kvikmynd
[breyta | breyta frumkóða]Safnið er viðfangsefni The Final Member, kvikmynd kanadískra heimildakvikmyndagerðarmannanna Zach Math og Jonah Bekhor. Í henni er fjallað um Sigurð og leit hans að mannsreðri fyrir safnið, meðal annars með því að rekja sögu amerískra og íslenskra gefenda og skoða hið nær-bannhelga eðli safngripa safnsins. Bekhor segir að ekki sé um að ræða Rorschach próf, en viðbrögðin gætu gefið sterklega til kynna viðhorf manns til þess hluta mannslíkamans. Jafnframt segir hann að um sé að ræða afar áhugavert fyrirbæri og að þeir séu mjög forvitnir um viðbrögð áhorfandans. Kvikmyndin var frumsýnd þann 1. maí 2012 á Hot Docs Canadian International Documentary Festival.[25]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „At Iceland's Phallological Museum, size is everything“ (enska). Agence France-Presse. júlí 2011. Sótt maí 2016.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Um safnið“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. febrúar 2016.
- ↑ Andrés Jónsson (5. september 2003). „Björgum hinu íslenzka reðasafni“. politik.is. Sótt 3. júní 2011.
- ↑ „Ætlar að flytja Reðursafnið til Reykjavíkur“. Fréttablaðið. 13. apríl 2011. Sótt 3. júní 2011.
- ↑ „Hafnaði tugmilljónum í typpin“. Vísir. 26. mars 2012. Sótt 27. maí 2012.
- ↑ „Sigurjón Baldur Hafsteinsson“. Academia.edu. Sótt 3. júní 2016.
- ↑ Sigurjón Baldur Hafsteinsson (2009). „Globalized Members: The Icelandic Phallological Museum and Neoliberalism“. Sótt 15. júní 2012.
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 Bob Strong (15. maí 2008). „Icelandic museum offers long and short of male organ“. Reuters. Sótt 3. júní 2011.
- ↑ 9,0 9,1 „Phallus.is – Limaskrá“. Sótt 3. júní 2016.
- ↑ 10,0 10,1 10,2 „Penis-Museum in Island: Wer hat den Größten?“, Der Spiegel, 9. september 2008. (de)
- ↑ 11,0 11,1 11,2 Jennifer Knoll (20. mars 2002). „Penis museum stands out in frozen Iceland“. Independent Online. Sótt 3. júní 2011.
- ↑ Iva R. Skoch. „Welcome to the world's largest penis collection“, Salon.com, 29. júlí 2011.
- ↑ 13,0 13,1 David Leffman; James Proctor (2004). The Rough Guide to Iceland. Rough Guides. bls. 71. ISBN 978-1-84353-289-7.
- ↑ 14,0 14,1 Sarah Lyall. „The Penises of the Icelandic Handball Team“, Slate, 8. ágúst 2012, skoðað þann 18. desember 2012.
- ↑ Ross Martin (23. janúar 2002). „A Life's Work: Penis Collector“. Nerve.com. Sótt 19. desember 2012.
- ↑ Sjá Museum Ruim1op10
- ↑ „Icelandic Penis Donor Passes Away“, IcelandReview Online, 16. janúar 2011, skoðað þann 3. júní 2011.
- ↑ 18,0 18,1 Linda Barnard. „Hot Docs 2012: Icelandic penis museum's search for a human specimen“, The Toronto Star, 29. apríl 2012, skoðað þann 27. maí 2012.
- ↑ Robert Bell. „The Final Member – Leikstýrt af Jonah Bekhor & Zach Math“. Exclaim!.
- ↑ Julie Beck. „The Anatomy of Iceland's Penis Museum“, The Atlantic, 9. júní 2014, skoðað þann 8. apríl 2016.
- ↑ Josh Schonwald. „Show me yours“, Salon.com, 27. mars 2001, skoðað þann 3. júní 2011.
- ↑ Jamie Cummins. „The erection collection“, ABC Canberra, 26. apríl 2012, skoðað þann 27. maí 2012.
- ↑ Buck Wolf. „Jonah Falcon To Become Penis Museum's Most Outstanding Member“, The Huffington Post, 2. maí 2014, skoðað þann 8. apríl 2016.
- ↑ Reðasafnið fær afsteypu af getnaðarlim Jimi Hendrix RÚV, sótt 24. maí 2022
- ↑ Victoria Ahern. „'The Final Member' confronts taboo topic at Iceland's penis museum“, The Canadian Press, 30. apríl 2012.
Fyrirmynd greinarinnar var „Icelandic Phallological Museum“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. maí 2016.