Hamstur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Hamstrar tilheyra Cricetidae, stórri ætt nagdýra og eru skyldari læmingjum en músum. Þeir eru af undirætt hamstra (Cricetinae) sem telur um 25 tegundir í 6-7 ættkvíslum. Af ættkvísli dverghamstra (Phodopus) eru til dæmis tegundirnar Campbell-hamstur, Djungarian (eða Winter White) og Roborovski-hamstur, þessar tegundir eru frá Rússlandi. Það eru til bæði litlir og stórir hamstrar, loðhamstrar, gullhamstrar og venjulegir hamstrar. Hamstrar lifa yfirlett í 3 - 4 ár en Roborovski-hamsturinn er langlífastur þessara tegunda. Kjörlendi ýmissa hamstrategunda er þurrt, jafnvel eyðimerkur.

Hamstrar eru algeng gæludýr um allan heim. Algengustu sjúkdómar hamstra eru augnsýkingar, maurar og lýs, kvef og lungnasýkingar. Hamstrar éta nýtt gras, hey, hrátt grænmeti og ávexti. Melónur og sellerí þykja hömstrum góðir aukabitar. Auk þess þurfa þeir korn á hverjum degi. Þeir þurfa að hafa fóður allan sólarhringinn og alltaf skal haft ferskt vatn hjá þeim. Eins og áður er sagt eru til margar tegundir hamstra en algengustu tegundirnar sem haldnar eru sem gæludýr eru dverghamstrar og gullhamstrar.

Hamstrar lifa villtir í Evrópu og Asíu, við ár þar sem þeir grafa sér göng. Hamstrar sofa á daginn en hreyfa sig á nóttunni og þarf að taka tillit til þess þegar þeim er valinn staður á heimili. Best er að búrin séu sem stærst.