Hertogar af Normandí
Hertogar af Normandí – eða Rúðujarlar, kenndir við Rúðuborg – kallast þeir hertogar, sem ríktu á árabilinu 911–1204 yfir því svæði í Norður-Frakklandi, sem nú kallast Normandí.
Hertogadæmið Normandí stofnaði víkingahöfðinginn Rollo, eða Göngu-Hrólfur, árið 911 með samkomulagi við Karl einfalda Frakkakonung, sem gaf Rollo nafnbótina jarl Normanna. Í staðinn áttu Normannar að sjá um landvarnir, meðal annars gegn víkingum. Í fyrstu var um jarlsdæmi að ræða, en síðar hertogadæmi og var Ríkarður 2. sá fyrsti sem bar formlega titilinn hertogi af Normandí.
Árið 1066 lögðu Normannar, undir stjórn Vilhjálms sigursæla, England undir sig. Varð Vilhjálmur þá konungur Englands, en Normandí var áfram hertogadæmi undir stjórn hans og afkomenda hans. Þetta leiddi til þeirrar undarlegu stöðu að Vilhjálmur var bæði konungur Englands og lénsmaður Frakkakonungs, og var þetta lengi uppspretta ófriðar á milli ríkjanna.
Árið 1204 hertók Filippus 2. Frakkakonungur hertogadæmið á meginlandinu en Ermarsundseyjar voru þó undanskildar. Konungar Englands gerðu áfram kröfu um að halda titlinum hertogi af Normandí, en með samningi milli Englands og Frakklands 1259, gáfu þeir þá kröfu eftir. Síðar reyndu þeir oftar en einu sinni að ná aftur eignum sínum í Frakklandi, einkum í Hundraðárastríðinu, en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Listi yfir hertogana
[breyta | breyta frumkóða]- 911-927: Rollo eða Göngu-Hrólfur
- 927-942: Vilhjálmur 1. af Normandí eða Vilhjálmur 1. langasverð
- 942-996: Ríkarður 1. af Normandí
- 996-1027: Ríkarður 2. af Normandí eða Ríkarður hinn góði
- 1027-1028: Ríkarður 3. af Normandí
- 1028-1035: Róbert 1. af Normandí, eða Roðbert 1.
- 1035-1087: Vilhjálmur bastarður eða Vilhjálmur sigursæli
- 1087-1106: Róbert 2. af Normandí eða Róbert stuttsokkur
- Vilhjálmur 2. Englandskonungur (1096-1100, í umboði bróður síns)
- 1106-1135: Hinrik 1. Englandskonungur
- Vilhjálmur öðlingur (um tíma árið 1120, í umboði föður síns, Hinriks 1.)
- 1135-1144: Stefán Englandskonungur
- 1144-1150: Geoffrey Plantagenet, greifi af Anjou og hertogi af Normandí
- 1150-1189: Hinrik 2. Englandskonungur
- 1189-1199: Ríkharður ljónshjarta, á frönsku: Richard Coeur de Lion
- 1199-1204: Jóhann landlausi, á frönsku: Jean Sans-Terre
Árið 1204 lagði Filippus 2. Frakkakonungur Normandí undir sig, en konungar Englands gerðu þó kröfu til hertogatitilsins. Með samningi 1259 viðurkenndu þeir yfirráð Frakka.
- 1204-1216: Jóhann landlausi (hertogi að nafninu til)
- 1216-1259: Hinrik 3. Englandskonungur (hertogi að nafninu til)
Konungar Englands réðu áfram yfir Ermarsundseyjunum, sem höfðu verið hluti af hertogadæminu frá 933. Á eyjunum hefur konungurinn samkvæmt hefð alltaf verið kallaður hertogi af Normandí.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Normanniske hertugrække“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. september 2008.