Fara í innihald

Arminíus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hermann (herforingi))
Arminíus
Stytta af Arminíusi uppi á Hermannssúlunni í Þýskalandi.
Fæddur18/17 f.Kr.
DáinnÁrið 21
ÞjóðerniKerúski (germanskur)
MakiÞúsildur (Thusnelda)
Börn1
ForeldrarSigmar (Segimer) (faðir)

Arminíus (18/17 f.Kr.–21. e.Kr., einnig kallaður Hermann) var germanskur höfðingi af þjóð Kerúska. Hann er þekktur fyrir að hafa stýrt bandalagi germanskra þjóðflokka sem sigraði her Rómverja í orrustunni í Þjóðborgarskógi árið 9. Í orrustunni tortímdi her Arminíusar þremur rómverskum hersveitum, eða um 12.000 hermönnum, og stöðvaði í reynd útþenslu Rómaveldis inn í Germaníu.

Eftir stofnun Þýskalands á 19. öld varð Arminíus mikilvæg táknmynd þýskrar þjóðernishyggju og hernaðarhyggju.

Arminíus var sonur Sigmars, höfðingja hins germanska þjóðflokks Kerúska. Þegar Tíberíus, stjúpsonur Ágústusar Rómarkeisara, herjaði á Germani á fyrsta áratuginum eftir Krists burð, fékk hann suma þjóðflokka Germana á sitt band. Sigmar leiddi Kerúska í bandalag með Rómverjum og barðist með þeim gegn öðrum Germönum. Sökum þessa hlutu synir Sigmars, Arminíus og Flavus, rómverskan borgararétt og gegndu þjónustu í rómverska hernum.[1] Arminíus varð foringi germanskra aðstoðarhersveita í herförum Rómverja.[2] Hann hlaut jafnframt aðalstign riddara (eques).[3]

Arminíus snerist gegn Rómverjum þegar hann sneri heim úr herþjónustu og sá hvernig komið var fyrir heimalandi hans undir rómverskri stjórn.[4] Eftir að Tíberíus hvarf á brott og Publius Quinctilius Varus var skipaður landstjóri Rómverja í Germaníu hófst uppreisnarhreyfing meðal Kerúska. Arminíus og ungir Germanir af kynslóð hans, sem vildu sjá aukinn þjóðarmetnað, voru í forsvari uppreisnarinnar en margir eldri höfðingjar sættu sig við rómverskt forræði.[1]

Arminíus var kvæntur Þúsildi, dóttur höfðingjans Siggests, sem var tryggur stuðningsmaður Rómverja. Bræður Þúsildar fylgdu Arminíusi að málum. Arminíus hóf í laumi að afla sér stuðnings germanskra ættbálka og þjóða og lagði á ráðin um að gera óvænta árás á Rómverja. Þar sem Arminíus hafði barist með Rómverjum þekkti hann herbrögð þeirra og vissi að þeir væru hættulegastir á opnum bardagavöllum en auðveldara yrði að gera árás á þá í þéttum skógi.[1]

Arminíus kveður Þúsildi á málverki eftir Johannes Gehrts (1884).

Árið 9 greindi Siggestur Varusi frá því að Arminíus og fleiri Kerúskar væru að brugga launráð gegn Rómverjum en Varus tók ekki mark á honum.[5] Þegar Varusi bárust fregnir af því að þjóðflokkur í austurhluta Germaníu hefði hafið uppreisn lagði hann af stað með her sinn frá herbúðum sínum við Rínarfljót í von um að yfirbuga uppreisnina sem fyrst. Varus skipaði Arminíusi og nokkrum öðrum foringjum heimamanna að fylgja sér.[6] Að sögn sagnaritarans Cassiusar Dio leiddu Arminíus og félagar hans Rómverja eftir löngum krókaleiðum á meðan hópar Germana gerðu skyndiárásir úr runnum og kjörrum til að veikja herinn.[2]

Þegar rómverski herinn var kominn inn í hinn þykka Þjóðborgarskóg létu Arminíus og menn hans sig hverfa.[4] Í slagveðursrigningu sem skall á 9.—11. september árið 9 gerðu germanskir herir, sem höfðu umkringt Rómverja í skógarþykkninu, árás á rómverska herinn úr öllum áttum. Undir forystu Arminíusar gersigruðu Germanir her Varusar í orrustunni í Þjóðborgarskógi og tortímdu þremur hersveitum þeirra með öllu. Þegar ljóst var að staðan var vonlaus fyrirfór Varus sér með því að falla á sverð sitt.[7] Arminíus lét höggva höfuðið af líki Varusar og sendi það til Marboða, konungs Markamanna í Bæheimi, líklega sem áskorun um bandalag og sókn gegn Rómverjum. Marboði þáði ekki boð Arminíusar, heldur sendi hann höfuðið áfram til Rómar sem merki um áframhaldandi hollustu sína við Rómverja.[5]

Eftir sigurinn í Þjóðborgarskógi varð Arminíus slík hetja meðal Germana að allir hlýddu honum. Þegar Tíberíus sneri aftur til Germaníu til að hefna ósigurs Rómverja gegn Arminíusi tók Arminíus upp nýjar hernaðaraðferðir sem fólust í því að þegar Rómverjar nálguðust voru íbúarnir látnir flýja inn í skógana, þangað sem Tíberíus vogaði sér ekki að elta þá. Tíberíus varði um tveimur eða þremur árum í hefndarhug í Germaníu en sneri heim til Rómar árið 14 til að setjast á keisarastól eftir andlát Ágústusar. Bróðursonur Tíberíusar, Germanicus, tók þá við stjórn rómverska hersins í Germaníu.[5]

Arminíus leiddi heri Germana gegn Germanicusi á næstu árum og komst nokkrum sinnum naumlega undan eftir orrustur þeirra á milli. Flokkadrættir milli Germana urðu Arminíusi hins vegar erfiðir á næstu árum. Arminíus vildi gerast stórkonungur allra Germana, sem leiddi til frekari átaka við Marboða, konung Markamanna. Landsmenn Arminíusar létu sér jafnframt einræði hans illa lynda. Tengdafaðir hans, Siggestur, tók Þúsildi dóttur sína frá Arminíusi og leitaði á náðir Rómverja. Þúsildur var þá ólétt af syni þeirra Arminíusar og ólst hann síðan upp í suðurhluta Ítaíu.[8] Arminíus var að endingu myrtur á laun af sínum eigin mönnum.[4]

Á tíma aukinnar þjóðernisvitundar á 19. öld fóru Þjóðverjar að líta á Arminíus sem rómantíska þjóðhetju sem hefði frelsað land sitt úr ánauð. Þjóðverjar túlkuðu nafnið Arminíus sem „Hermann“ upp á þýsku, þótt óvíst sé hvort það hafi í raun verið nafn hans. Eftir stofnun Þýskalands var listamanninum Ernst von Bandel falið að hanna minnismerki til heiður Arminíusar. Hermannssúla Bandels var vígð árið 1875 í miðjum Þjóðborgarskógi og er um 60 metrar á hæð.[8]

  • Þorsteinn Thorarensen (1982). Hátindur keisaravelda. Veraldarsaga Fjölva. 7. árgangur. Reykjavík: Fjölvi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Þorsteinn Thorarensen 1982, bls. 158.
  2. 2,0 2,1 „Germanir gersigruðu rómverskan her árið 9“. Tíminn. 21. nóvember 1991. bls. 8–9.
  3. Jón R. Hjálmarsson (9. mars 1958). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 125–126.
  4. 4,0 4,1 4,2 Jón Hjálmarsson (5. febrúar 1967). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Tíminn. bls. 100–103.
  5. 5,0 5,1 5,2 Þorsteinn Thorarensen 1982, bls. 159.
  6. Jón R. Hjálmarsson (1. febrúar 2007). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Heima er bezt. bls. 84–85.
  7. Siglaugur Brynleifsson (23. ágúst 1997). „Germanía og Germanir: Friðarspillar úr þokulandinu“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 8–10.
  8. 8,0 8,1 Þorsteinn Thorarensen 1982, bls. 160.