Helgi Hermann Eiríksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Helgi Hermann Eiríksson (f. 3. maí 1890, dáinn 10. október 1974) var íslenskur verkfræðingur, skólastjóri og fyrsti bankastjóri Iðnaðarbankans.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Helgi Hermann fæddist að Tungu í Örlygshöfn í Patreksfirði. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1913. Hann hélt náms í Kaupmannahöfn og Glasgow í Skotlandi, þaðan sem hann útskrifaðist með próf í námuverkfræði árið 1919.

Metnaður Helga stóð til þess að byggja upp hvers kyns námu- og jarðefnaiðnað á Íslandi og voru ýmis störf hans eftir að heim var komið á því sviði. Hann sinnti ýmsum rannsóknum við silfurbergsnámuna á Helgustöðum við Reyðarfjörð, bergrannsóknum víða um land og hafði eftirlit með gerð hitaveitu Reykajvíkur á árum seinni heimsstyrjaldar.

Samhliða almennum verkfræðistörfum hóf Helgi Hermann að gegna kennslu. Bæði við Kvennaskólann í Reykjavík en einkum þó við Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann var kennari og skólastjóri um þriggja áratuga skeið.

Iðnaðarbanki Íslands var stofnaður árið 1953 og var Helgi Hermann ráðinn fyrsti bankastjóri hans. Gegndi hann því embætti út starfsævina.

Helgi Hermann var virkur í félagsmálum. Var bæjarfulltrúi í Reykjavík um átta ára skeið fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti forseti Golfsambandsins og varaformaður Ólympíunefndar Íslands. Auk þess gegndi hann alls kyns trúnaðarstörfum fyrir ýmis félög á sviði iðnaðar- og tæknimála.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Íslenzkur iðnaður, 32.tbl., apríl 1953.