Heinrich-atburður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heinrich atburðir, nefndir eftir fornloftlagsfræðingnum Hartmut Heinrich, eru skyndilegir atburðir í náttúrufari sem áttu sér stað á síðasta jökulskeiði. Ummerki þessara atburða er að finna með vissu millibili í ísborinni bergmylsnu í setkjörnum í Norður-Atlantshafi, en einnig sjást ummerki um atburðina víðast hvar á jörðinni. Borin hafa verið kennsl á sex slíka atburði sem nefnast H1-H6. Gögn benda til að atburðir H3 og H6 séu frábrugðnir.

Heinrich atburðir eru flokkaðir til afgerandi viðburða, þar sem floti ísjaka barst út til sjávar frá Hudsonflóa. Rúmmál ferskvatns sem barst til sjávar í einum Heinrich atburði hefur verið áætlað 370 km3.

Lagðar hafa verið fram fjölmargar skýringar á Heinrich atburðum. Snúa þær flestar að virkni Laurentide jökuhvelsins og innri sveiflum sem áttu sér stað í jöklinum. Einnig hafa komið fram getgátur um að hið óstöðuga vestur íshvel Suðurskautslandsins geti verið kveikjan að atburðunum.

Heinrich atburðir eru skyldir svokölluðum Dansgaard-Oeschger atburðum sem koma greinilega fram í ískjörnum frá Grænlandsjökli og eiga Heinrich atburðirnir sér stað á köldum tímabilum innan D-O atburðanna.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]