Fara í innihald

Hallmundarhraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hallmundarhraun
Hraunfossar: kvíslar seitlandi úr Hallmundarhrauni
Viðgelmir
Kort af Hallmundarhrauni.

Hallmundarhraun er stærsta hraunbreiða í Borgarfirði. Það er helluhraun sem talið er hafa myndast skömmu eftir landnám Íslands, einhvern tímann á 10. öld. Það er kennt við Hallmund þann sem Grettis saga segir að ætti sér bústað á þessum slóðum. Hraunið er komið úr miklum gíg upp undir Langjökli undir svokölluðum Jökulstöllum. Nýverið er farið að kalla hann Hallmund eða Hallmundargíg. Líklegt er að gosið hafi verið langvinnt og staðið í nokkur ár. Ekki er talið að mikil gjóska hafi myndast í gosinu en kvikustrókar og gosgufur hafa vafalítið stigið upp af eldvörpunum vikum og mánuðum saman. Það er yfir 200 km² að flatarmáli. Breiðast er hraunið um 7 km og heildarlengd þess er 52 km.[1].

Merkileg frásögn af þessu gosi er í fornu kvæði sem kallast Hallmundarkviða. Þetta er elsta lýsing sem til er á eldgosi á Íslandi. Þar er greint frá jarðskjálftum, kvikustrókum, gosmekki, hraunrennsli og mannskaða af völdum gossins.[2] Líklegt er talið að gosið hafi átt sér stað milli 940-950. Hugsanlegt er að nokkrir bæir hafi horfið í hraunið. [3]

Í Hallmundarhrauni eru margir hellar, þar á meðal stærstu hellar landsins. Þeirra þekktastir eru Víðgelmir, Stefánshellir og Surtshellir. Hellismenn voru ræningjaflokkur sem hafðist við í Surtshelli og þar eru merkar fornminjar frá þeirra tíð. Við hraunjaðarinn eru náttúruperlurnar Hraunfossar og Barnafoss og ferðamannastaðurinn Húsafell.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sveinn P. Jakobsson; Júlíus Sólnes (ritstj.) (2013). Vesturgosbelti. Í bókinni: Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan. bls. 359-365.
  2. Árni Hjartarson (2014). „Hallmundarkviða. Eldforn lýsing á eldgosi“. Náttúrufræðingurinn (84): 27–37.
  3. Árni Hjartarson (2015). „Hallmundarkviða. Áhrif eldgoss á mannlíf og byggð í Borgarfirði“. Náttúrufræðingurinn (85): 60–67.