Hallmundarkviða
Hallmundarkviða er eitt af fornkvæðum Íslendinga. Kvæðið er fellt inn í svokallaðan Bergbúaþátt, sem er einn af stystu þáttum fornbókmenntanna. [1] Kvæðið sjálft er tólf vísna flokkur undir dróttkvæðum hætti. Það er æði torskilið og mikið skreytt með kenningum og heitum hins gamla skáldamáls. Kviðan er lögð í munn Hallmundi jötni, þ.e. hann er ljóðmælandinn. Í fyrri hluta kviðunnar er lýst eldsumbrotum og hraunrennsli. Í seinni hlutanum er eldgosið sett í goðsögulegt samhengi. Þar er lýst átökum jötna við Þór, guð elds og eldinga. Eldsumbrotin virðast vera afleiðing þessara átaka. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eldsumbrotin sem um ræðir er gosið sem varð þegar Hallmundarhraun í Borgarfirði rann. Flest bendir til að kviðan sé ort skömmu eftir gosið og hugsanlega af manni sem varð vitni að atburðunum eða hafði góðar heimildir um þá. Allur hugmyndaheimur kviðunnar er heiðinn, hvergi vottar fyrir kristnum áhrifum. Skáldamálið, goðafræðin og öll hugsun verksins bendir til heiðins tíma. Settar hafa verið fram tilgátur um að kviðan sé ort á tímabilinu 940-950 og að höfundur hennar sé Þorvaldur holbarki. [2] [3] Þorvaldar er getið í Landnámu og um hann er sagt að hann hafi farið upp til hellisins Surts og flutt jötninum sem þar bjó drápu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson (1976). Bergbúaþáttur, Islensk fornrit XIII (Harðar saga). Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík. bls. 441-450.
- ↑ Árni Hjartarson (2014). „Hallmundarkviða. Eldforn lýsing á eldgosi“. Náttúrufræðingurinn (84): 27–37.
- ↑ Árni Hjartarson (2015). „Hallmundarkviða. Áhrif eldgoss á mannlíf og byggð í Borgarfirði“. Náttúrufræðingurinn (85): 60–67.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]