Fara í innihald

Víðgelmir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Víðgelmir í Hallmundarhrauni er víða stórgrýttur. Gárurnar á veggjum hellisins sýna yfirborðsstöðu hraunflaumsins á ýmsum tímum eldgossins.

Víðgelmir er einn af lengstu (1.585 m) hellum landsins og rúmtaksmestu (148.000 m³) hraunhellum heims. Hann er í Hallmundarhrauni, u.þ.b. 2 km suðaustur af Fljótstungu í Hvítársíðu. Þak hellisins hefur hrunið á allstórum kafla, nærri norðurenda hans, og er það eini inngangurinn. Hellirinn er víður fremst en þrengist á köflum þegar innar dregur. Þar var, í október árið 1991 sett upp járnhlið af félagsmönnum í Hellarannsóknafélagi Íslands til að vernda þær dropasteinsmyndanir sem ekki hafa þegar verið eyðilagðar. Mannvistarleifar sem fundust í hellinum eru varðveittar í Þjóðminjasafninu og eru að líkindum frá víkingaöld. Hellirinn er á köflum afar erfiður yfirferðar og tæpast ráðlegt að fara um hann nema með leiðsögumanni. Leiðsögn og aðgangur að innri hluta hellisins er fáanleg frá Fljótstungu.

Hellirinn var lokaður af ís frá árinu 1918 til ársins 1930 en hann lokaðist aftur um veturinn 1972-1973. Í apríl 1990 fór hópur á vegum Hellarannsóknafélags Íslands með tól og tæki og freistaði þess að opna hellinn. Ekki tókst það að þessu sinni en árið eftir tóku nokkrir heimamenn af bæjum í Hvítársíðu og Hálsasveit sig saman, undir forystu Kristleifs Þorsteinssonar bónda í Húsafelli og kláruðu verkið.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Fljótstunga“.