Fara í innihald

Hellismenn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hellismenn voru ránsmenn sem dvöldu í Surtshelli á 10. öld. Landnámabók er eina ritheimildin um Hellismenn sem nokkurt hald er í. Þeir eru raunar nefndir í Harðar sögu en hún er ekki talin góð sagnfræðiheimild. Einnig er til sérstök saga um þá, Hellismannasaga, sem gefin var út í Íslendingasagnaútgáfu Guðna Jónssonar en hana ritaði Gísli Konráðsson í byrjun 19. aldar. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er einnig saga af Hellismönnum í Surtshelli en hún er uppspuni frá rótum. Í Landnámu kemur fram að foringjar Hellismanna voru bræðurnir Þórarinn og Auðunn Smiðkelssynir frá Þorvarðsstöðum í Hvítársíðu. Einnig er greint frá því að höfðingjar í Borgarfirði hafi staðið að drápi 18 Hellismanna á Hellisfitjum. Surtshellir er ekki nefndur á nafn í þessu sambandi en Hellisfitjar, sem Landnáma getur um ,eru skammt frá honum og hinar fornu mannvistarleifar í hellinum benda eindregið til að þar hafi Hellismenn búið. Samkvæmt Landnámu hefur það verið nálægt miðri 10. öld. Rannsóknir jarðfræðinga og fornleifafræðinga benda til að þetta hafi vetrið um og eftir 950.[1] [2] Hellismenn skildu eftir sig merkar minjar í Surtshelli, bæði steinhleðslur miklar, beinaleifar af sláturdýrum og muni sem fornleifafræðingar hafa rannsakað.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Árni Hjartarson (2014). „Hallmundarkviða. Eldforn lýsing á eldgosi“. Náttúrufræðingurinn (84): 27–37.
  2. Árni Hjartarson (2015). „Hallmundarkviða. Áhrif eldgoss á mannlíf og byggð í Borgarfirði“. Náttúrufræðingurinn (85): 60–67.