Fara í innihald

Hús Sláturfélags Suðurlands (Laugarnesvegi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hús Sláturfélags Suðurlands (eða SS-húsið) í Laugarnesi í Reykjavík er 10.295 fermetra stórhýsi sem var reist undir vinnslu- og dreifingarmiðstöð og skrifstofuhúsnæði Sláturfélags Suðurlands á árunum 1985-1988. Húsið stendur að Laugarnesvegi 91 en þangað ætlaði félagið að flytja aðstöðu sína sem félagið hafði á Skúlagötunni. Úr því varð þó aldrei og húsið var aldrei fullklárað og stóð autt í nokkur ár. Í húsi Sláturfélags Suðurlands er núna Listaháskóli Íslands en lítil ánægja hefur verið með húsnæðið frá upphafi.[1]

Árið 1978 var borgarafundur með þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, Birgi Ísleifi Gunnarssyni. Þar kom fram að í febrúar 1977 skrifuðu 630 íbúar Laugarneshverfis undir áskorun til borgarstjórnar Reykjavíkur um að tún það, sem afmarkast af Laugarnesvegi, Laugalæk og Sætúni, yrði ekki lagt undir frekari byggingar en lagfært sem útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins með því að slétta það og ræsa fram, en á því voru opnir skurðir sem fylltust af vatni og alls konar drasli og svæðið af þeim sökum í megnustu óhirðu. En borgarstjórn hafði tekið afstöðu til málsins og hún var sú að halda sig við upphaflega skipulagið, það er að segja að þarna yrði úthlutað lóðum til fyrirtækja sem starfa í kjötiðnaði. Samband íslenzkra samvinnufélaga hafði þá þegar fengið þarna lóð og Sláturfélag Suðurlands sótt um lóð.[2]

Bygging SS-hússins hófst árið 1985. Árið 1987 höfðu farið 94,5 milljónir til byggingaframkvæmdanna og þá var enn langt í land og talað var um 150, 200 eða jafnvel fleiri milljónir á þávirði færu í framkvæmdir við bygginguna áður en yfir lyki. En reyndin var sú að alls fóru yfir 500 miljónir í bygginguna. Á þessum árum átti SS að rýma þáverandi höfuðstöðvar sínar við Skúlagötu fyrir árið 1990 vegna nýs Skúlagötuskipulags borgarinnar og þeir hugðust flytja í hið nýja húsnæði í Laugarnesi.[3] Af því varð þó ekki, Sláturfélag Suðurlands varð að endurskipuleggja allan rekstur sinn vegna slæmrar stöðu. Húsið var því aldrei klárað og 1989 sagði forstjóri Sláturfélags Suðurlands, Steinþór Skúlason, að húsnæðið væri ekki komið svo langt í byggingu að það væri orðið of sérhæft til að nýtast öðrum en Sláturfélaginu. Og hugðust þá selja það. Forráðamenn félagsins biðu þess síðan óþreyjufullir að Ríkið mundi kaupa húsnæðið en salan var í raun forsenda þess að flutningur á kjötvinnslu SS til Hvolsvallar gæti orðið að veruleika.[4]

Árið 1991 keypti síðan ríkissjóður SS-húsið með það fyrir augum að þar yrði í framtíðinni miðstöð æðri listmenntunar. Kaupverðið var 430 milljónir en þar af greiddi ríkið 300 milljónir með tíu fasteignum. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, og Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, undirrituðu samninginn. Sama dag var húsið opið frá klukkan 14 til 17 þar sem nemendur og kennarar Leiklistarskólans, Myndlista- og handíðaskólans og Tónlistarskólans í Reykjavík „munu láta kjötvinnslustöðina iða af lífi í samræmi við þá framtíð sem nú blasir við“, eins og sagði í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]