Hítardalur (bær)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hítardalur.

Hítardalur í Mýrasýslu er fornt höfuðból og prestssetur í samnefndum dal, samkvæmt þjóðsögum kennt við tröllkonuna Hít sem varð að steini þar rétt neðan við bæinn ásamt Bárði Snæfellsás og standa þeir drangar enn. Bærinn hét reyndar upphaflega Húsafell og fellið hjá honum einnig en það er nú oftast kallað Bæjarfell. Hítardalur er landnámsjörð og byggði Þórhaddur Steinsson þar manna fyrstur að sögn Landnámabókar.

Bærinn Hítardalur er meðal annars þekktur fyrir að þar varð mannskæðasti eldsvoði Íslandssögunnar þann 30. september 1148. Meira en 70 manns sem voru þar við veislu fórust í brunanum, þar á meðal var biskupinn í Skálholti, Magnús Einarsson. Í Hítardal starfaði munkaklaustur af reglu Benedikts að því að talið er frá 1166 eða 1168 til 1201, en lítið er vitað um sögu þess. Á 13. öld bjó Ketill Þorláksson lögsögumaður í Hítardal og síðan Loftur biskupssonur.

Síðar varð Hítardalur prestssetur og þótti eitt besta brauð landsins. Þar sátu margir merkisprestar og sumir þeirra voru þekktir fræðimenn. Þar má nefna séra Þórð Jónsson, sem þar var á 17. öld og skrifaði meðal annars ættartölurit sem voru gefin út árið 2008. Einn af þekktustu prestum í Hítardal var séra Jón Halldórsson, mikilvirkur sagnaritari sem var þar prestur frá 1691-1736. Hann skrifaði meðal annars biskupasögur, sögur skólameistara, hirðstjóra og fleiri og skráði Hítardalsannál. Synir hans voru Finnur Jónsson biskup og Vigfús Jónsson prestur og fræðimaður í Hítardal, sem skrifaði þar fyrstu íslensku barnabókina.