Gunnar Hansson (arkitekt)
Gunnar Hansson (19. febrúar 1925 – 6. janúar 1989) var íslenskur arkitekt sem var lengi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í byggingarnefnd Reykjavíkurborgar og hafði þar mikil áhrif á skipulag borgarinnar. Hann teiknaði margar þekktar byggingar eins og Morgunblaðshöllina við Aðalstræti, kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg, Hlemm og Umferðarmiðstöðina. Hann teiknaði líka Fossvogsskóla, Hólabrekkuskóla og Ölduselsskóla. Hann hlaut Menningarverðlaun DV 1979 fyrir hönnun sína á Hlemmi sem þótti afar nýstárleg. Hann kom að skipulagi Heimahverfisins (Sólheima, Álfheima, Ljósheima og Glaðheima) sem var hannað í anda hugmynda Le Corbusiers (háhýsi á miðjum stórum grænum lóðum).
Hann lærði við Berkeley-háskóla í eitt ár, en lauk svo námi í arkitektúr við Norges Tekniske Høgskole á 6. áratug 20. aldar. Hann vann um skeið hjá Húsameistara Reykjavíkurborgar en stofnaði eigin teiknistofu árið 1958. Hann hannaði og byggði hús fyrir sig og fjölskyldu sína við Sólheima í Reykjavík.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Kristín Guðmundsdóttir (2018). Arkitektinn sem vantar í stéttartalið: Gunnar Hansson (BA thesis). Listaháskóli Íslands.