Fara í innihald

Gregor Mendel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gregor Mendel

Gregor Johann Mendel (20. júlí 18226. janúar 1884) var austurrískur kanúki af Ágústínusarreglu, en er þekktastur fyrir vísindarannsóknir sínar. Hann er oft kallaður Faðir erfðafræðinnar.

Á árunum 1856-1863 gerði Mendel tilraunir í garði Drottningarklaustursins í Brünn. Hann hóf að athuga og skrá hjá sér kynblöndun á gráertum (Pisum sativum) til þess að sjá hvort einhver regla eða eitthvert mynstur væri í því hvernig eiginleikar plantnanna erfðust. Lét hann hreinræktaðar plöntur með mismunandi eiginleika æxlast saman. Þær plöntur voru foreldrakynslóðin. Eiginleikinn sem kom fram í fyrstu afkomendakynslóðinni var kallaður ríkjandi. Eiginleikinn sem hvarf í þessari kynslóð en birtist síðan á ný í annarri afkomendakynslóðinni, var kallaður víkjandi.

Niðurstöður þessara tilrauna voru kynntar á fundum Náttúruvísindafélagsins í Brünn 8. febrúar og 8. mars árið 1865, og gefnar út af sama félagi ári síðar, 1866, undir nafninu: Tilraunir við kynblöndun plantna. Í niðurstöðunum dró Mendel saman í tvær tilgátur, sem síðar voru nefndar Mendelslögmál. Fyrsta lögmálið er um aðskilnað gena; samkvæmt því hlýtur hver kynfruma aðeins annað genanna í hverju genapari. Annað lögmálið er um óháða samröðun gena; samkvæmt því erfist hvert genapar óháð öðrum, þ.e.a.s. uppröðun og aðskilnaður litninganna (en um tilvist þeirra vissu menn ekkert á dögum Mendels) er algjörlega tilviljunarkenndur.

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.