Fara í innihald

Hið heilaga gral

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gralið)
Teikning eftir Arthur Rackham, 1917.

Hið heilaga gral – (í fornu máli graull eða gangandi greiði [1] [2]) – er í kristnum helgisögum drykkjarker eða bikar, sem Jesús Kristur drakk af í síðustu kvöldmáltíðinni. Leitin að gralinu er endurtekið minni í sögunum um Artúr konung og öðrum miðaldaævintýrum.

Nokkur óvissa er um ritun orðsins í íslensku. Það getur verið í hvorugkyni: Gralið, um gralið, frá gralinu, til gralsins. (Beygist eins og val, sjá t.d. Íslenska bókmenntasögu 2, 1993, 198).

Aðrir nota orðið í karlkyni: Gralinn (eða grallinn), um gralinn, frá gralnum, til gralsins. Samkvæmt íslensku beygingakerfi ætti nefnifallið að vera grall (eða gralur), ef orðið er karlkyns.

Orðið gral er úr latínu: gradalis, sem var skál með smáhólfum, sem var notuð þegar margir smáréttir voru bornir fram. Síðar var orðið fyrst og fremst notað um kaleikinn sem Kristur drakk af við síðustu kvöldmáltíðina.

Helgisagnir

[breyta | breyta frumkóða]

Í fornum helgisögum segir að Jósef frá Arimateu lét blóð Krists drjúpa í gralið, þegar hann hékk á krossinum, og fékk gralið þá undraverða eiginleika. Jósef tók síðan gralið með sér til Bretlands, þar sem hann stofnaði reglu gæslumanna gralsins. Leitin að gralinu er endurtekið minni í sögunum um Arthúr konung og öðrum miðaldaævintýrum, en heilagt hlutverk konungsins var að finna þennan kaleik. Þessar helgisagnir urðu mikilvægar á Bretlandseyjum, ef til vill af því að þær hafa blandast þar keltneskum sögnum um helga katla sem höfðu töframátt. Í öðrum helgisögnum var gralið komið frá drottningunni af Saba sem gaf það Salómon konungi. Síðan komst Nikódemus yfir það og færði Kristi það að gjöf.

Í dómkirkjunni í Valencia á Spáni er mjög gamall kaleikur sem sumir telja vera gralið. Annar kaleikur, í Genova á Ítalíu, var fyrrum talinn vera gralið, en eftir að hann skemmdist við flutning frá París eftir fall Napóleons, kom í ljós að gimsteinn á honum var úr gleri. Hefur hann síðan sjaldan verið nefndur sem mögulegur kaleikur Krists.

Sögurnar um Gralið virðast upprunnar í Frakklandi á árabilinu 1180–1250, og voru síðan þýddar á mörg tungumál. Í þessum frönsku sögnum koma fram flestir þeir þættir sem einkenna helgisagnirnar upp frá því.

Chrétien de Troyes

[breyta | breyta frumkóða]

Elsta gral-rómansan er hin ófullgerða Perceval eða Sagan um gralinn eftir Chrétien frá Troyes. Hann segist nota sem heimild bók, sem Filippus af Flandri gaf honum. Kvæðið var samið milli 1180 og 1191. Gralið hefur þar ekki neinn töframátt, að því er virðist. Riddarinn Perceval sér gralið og spjót með oddi sem blæðir úr, þegar hann snæðir í kastala Fiskikonungsins. Í kvæði Chrétiens virðist gralið vera skál sem er borin inn til föður Fiskikonungsins, sem fær þar alla sína næringu. Nokkrum áratugum eftir að kvæði Chrétiens var samið, var farið að lýsa gralinu sem bikar eða kaleik, fyrir áhrif frá keltneskum sögnum og Nikodemusarguðspjallinu frá 5. öld.

Í Parcevals sögu, sem er þýðing frá 13. öld, segir: „Því næst gekk inn ein fögur mær og bar í höndum sér því líkast sem textus [vefnaður?] væri en þeir í völsku [frönsku] máli kalla graull, en vér megum kalla gangandi greiða. Af því skein svo mikið ljós að þegar hvarf birta allra þeirra loga er í voru höllinni sem stjörnubirta fyrir sólarljósi. Það var gert með miklum hagleik af gulli og öllum dýrstum steinum er í voru veröldinni.“

Wolfram frá Eschenbach

[breyta | breyta frumkóða]

Elsta heila frásögnin um gralið, er kvæðið Parsifal, sem Wolfram frá Eschenbach samdi á miðháþýsku milli 1200 og 1210. Talið er að frásögn hans sé að mestu byggð á kvæði Chrétiens frá Troyes, en Wolfram segist einnig styðjast við Kyot frá Provence, sem er óþekkt skáld. Í kvæði Wolframs er gralið steinn með dularfulla eiginleika, sem getur töfrað fram mat og drykk eins og hver vill og veitt mönnum eilífa æsku.

Leit á Kili árið 2008

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2008 fékk hópur fræðimanna og áhugafólks, undir stjórn Ítalans Giancarlo Gianazza, leyfi til að leita að helgum gripum og skjölum úr frumkristni við Skipholtskrók á Kili. Töldu þeir sig hafa ráðið af táknmáli, m.a. á málverki Leonardos da Vinci af Síðustu kvöldmáltíðinni, að Musterisriddarar hefðu falið þessa gripi þar í leynihvelfingu, m.a. hinn heilaga kaleik Krists. Það þótti styðja málið að árið 1990 fannst forn hnífur í Skipholtskrók, sem þeir töldu að gæti hafa tilheyrt varðmanni sem gætti leynihvelfingarinnar. Ekkert fannst við leitina.

  • Ásdís R. Magnúsdóttir (þýð.): Perceval eða Sagan um gralinn, Rvík 2010.
  • Fréttablaðið 4. júní 2008.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Den hellige gral“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. janúar 2011.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Í íslenskri gerð sögunnar um Perceval er gralið kallað „graull" eða „gangandi greiði" í 11. kafla.
  2. Riddarasögur; af Books.google.com