Fara í innihald

Musterisriddarar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Musterisriddari)
Þótt regla Musterisriddara yrði stórauðug var hún upphaflega fátæk og riddararnir hétu því að lifa í fátækt og skírlífi. Á innsigli reglunnar er fátæktin táknuð með því að tveir riddarar sitja á einum hesti.

Musterisriddarar (latína: Pauperes commilitones Christi Templique Solomonici) voru ein þekktasta regla kristinna riddara á miðöldum og voru við lýði í um tvær aldir.

Reglan var upphaflega stofnuð í Jerúsalem 1118 til að veita pílagrímum sem lagt höfðu leið sína til Landsins helga vernd og voru það nokkrir franskir riddarar sem stóðu fyrir því. Þeir fengu bækistöðvar á Musterishæðinni í Jerúsalem, í Al Aqsa-moskunni, sem þeir kölluðu Musteri Salómons, og fengu nafn sitt af þessu. Kaþólska kirkjan viðurkenndi regluna um 1129 og eftir það varð hún fljótt fjölmenn og valdamikil. Frá 1139 voru Musterisriddarar undanþegnir sköttum, höfðu frelsi til að fara yfir öll landamæri og lutu páfanum einum.

Hermenn og fjármálamenn

[breyta | breyta frumkóða]

Musterisriddarar voru einhverjir færustu bardagamenn krossferðanna og reistu virki víða um Evrópu og í Landinu helga en þó sinntu tiltölulega fáir þeirra hermennsku, margir meðlimir reglunnar helguðu sig fjármálastarfsemi fremur en hernaði og má segja að hún hafi rekið eins konar alþjóðlegt bankakerfi. Algengt var að aðalsmenn sem héldu af stað í krossferð eða pílagrímsferð fælu reglunni að sjá um eigur sínar á meðan og fengju í heldur skjöl sem þeir gátu notað í Landinu helga til að fá afhent lausafé hjá fulltrúum reglunnar þar. Reglan hafði af þessu mjög góðar tekjur og keypti lönd og eignir víða um Evrópu, stundaði verslun og átti kaupskip. Sagt hefur verið að regla Musterisriddara hafi í raun verið fyrsta alþjóðafyrirtækið.

Musterisriddarar brenndir á báli.

Tilvera reglunnar var nátengd krossferðunum og þegar kristnir menn misstu fótfestu í Landinu helga dró úr stuðningi við hana. Musterisriddarar misstu síðustu ítök sín þar árið 1291 og urðu þá að færa sig alfarið til Evrópu. Ýmiss konar orðrómur um launhelgar reglunnar komst á kreik og kveikti tortryggni í hennar garð og það notfærði Filippus 4. Frakkakonungur sér en hann var stórskuldugur við regluna. Árið 1307 hóf hann ofsóknir gegn Musterisriddurum í Frakklandi, lét handtaka þá, pynta og brenna á báli. Ofsóknirnar hófust föstudaginn 13. október og er sagt að þangað sé að leita skýringar á því að föstudagurinn 13. er talinn óheilladagur.

Filippus beitti svo Klemens V páfa þrýstingi og fékk hann til að banna regluna árið 1312, enda ágirntust bæði kóngur og páfi hinar miklu eignir reglunnar. Í framhaldi af því voru Musterisriddarar í öðrum löndum Evrópu ýmist handteknir (en fæstir þó dæmdir), teknir inn í aðrar reglur eða settir á eftirlaun. Því hefur þó líka verið haldið fram að hluti reglunnar hafi farið í felur, flúið til Bretlandseyja og starfað þar sem leyniregla sem hafi smám saman orðið að Frímúrarareglunni.

Síðasti stórmeistarinn

[breyta | breyta frumkóða]

Æðsti foringi Musterisriddara bar nafnbótina stórmeistari. Sá sem valinn var til þess embættis gengdi því til æviloka og margir stórmeistarar leiddu menn sína til orrustu og féllu fyrir óvinahendi.

Síðasti stórmeistarinn var Jacques de Molay, sem var handtekinn 13. október 1307 og píndur til að játa á sig guðlast en dró játningar sínar síðar til baka. Hann var hafður í haldi næstu árin og brenndur á báli í mars 1314. Hann var þá um sjötugt.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Knights Templar“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. febrúar 2011.
  • „„Hverjir voru musterisriddararnir sem talað er um í bókinni Da Vinci lykillinn?". Vísindavefurinn, skoðað 15.2.2011“.