Goðalindin
Goðalindin (franska: La Source des dieux) er sjötta bókin í sagnaflokknum um Hinrik og Hagbarð eftir belgíska myndasöguhöfundinn Peyo. Sagan birtist í myndasögublaðinu Sval á árinu 1956 en kom út á bókarformi árið 1957.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Hinrik og Hagbarður eru á heimleið eftir ævintýri þau sem frá segir í bókinni Með víkingum. Skipið hreppir brotsjó og þá skolar fyrir borð. Félagarnir koma að landi þar sem heimafólk bjargar þeim. Í ljós kemur að heimamenn, Slapplendingar, þjást af síþreytu sem gerir hinum illa Svínhöfða kleift að kúga þá og undiroka. Slappleiki fólksins er sagður afleiðing af bölvun galdranornar nokkurrar, en samkvæmt þjóðsögunni getur töfravatn úr Goðalindinni aflétt bölvuninni. Hinrik lofar þegar að leita að vatninu dýrmæta.
Hinrik og Hagbarður leggja þegar af stað, en svikari úr röðum Slapplendinga ber Svínhöfða fréttir af förinni. Leitin að töfralindinni gengur illa og eiga félagarnir meðal annars í höggi við illvígan risa. Þeir finna að lokum lindina og ná að blekkja varðmann hennar, sem er vopnaður fjölda eitraðra snáka. Hinrik og Hagbarður sleppa undan varðmanninum og sendimönnum Svínhöfða. Endurnærðir eftir vatnið úr goðalindinni heimta Slapplendingar aftur sinn fyrri styrk og rísa gegn oki Svínhöfða.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Goðalindin kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1982 í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún var önnur Hinriks og Hagbarðs-bókin sem kom út á íslensku. Bókin hefst á vísun í atburði sögunnar Með víkingum, en hún kom þó ekki út á íslensku fyrr en tveimur árum síðar.