Galdra-Imba

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Galdra-Imba, Ingibjörg Jónsdóttir (fædd milli 1630 og 1640) var íslensk kona sem sökuð var um galdra. Foreldrar hennar voru séra Jón Gunnarsson prestur í Hofstaðaþingum í Skagafirði (Flugumýrar- og Hofsstaðasóknum) og ábúandi á Þverá og Helga Erlendsdóttir kona hans. Seinna varð Jón faðir hennar prestur að Tjörn í Svarfaðardal þangað til hann lét af prestskap árið 1664.

Ingibjörg giftist séra Árna Jónssyni en hann var prestsonur úr Svarfaðardal, hafði gengið í Hólaskóla og verið í nokkur ár sveinn hjá Gísla Magnússyni sýslumanni (Vísa-Gísla). Árni var prestur í Viðvík árið 1658 og er dóttir hans og Ingibjargar Þuríður talin fædd 1660 en árið 1661 flytur hann í Fagranes og er þar í tólf ár en fer svo árið 1673 að Hofi á Skagaströnd og er þar prestur í fimm ár áður en hann er borinn galdri.

Prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Þorlákur Halldórsson, tilkynnir Gísla biskupi Þorlákssyni um galdrarykti Árna prests vorið 1678 og er það tekið fyrir á prestastefnu sem haldin var á Spákonufelli 5. maí 1679. Árna var dæmd undanfærsla með tylftareiði en hann fær ekki nógu marga eiðmenn til að sverja og flýr austur á land og þaðan til Englands árið 1680 og andast þar ári síðan í volæði. Nafngreindir eru fjórir kærendur séra Árna og voru kærurnar algeng í svona málum, tjón á gripum, veikindi á konum og börnum, hrakningar á sjó og truflun á heimilisfriði. Málsvörn séra Árna er mjög áfátt og bendir til að hann hafi verið talsvert ruglaður á geðsmunum. Líklegt er að Árni hafi staðnæmst að Nesi í Loðmundarfirði á ferð sinni til Englands því Ingibjörg kona hans er talin búa þar með dóttur þeirra eftir að Árni hefur flúið úr landi. Galdraáburður leggst nú á Ingibjörgu og sum barna þeirra. Ekkert sjáanlegt samband er milli þeirra saka sem séra Árni var kærður fyrir og sagna sem búnar eru til um Ingibjörgu og ganga manna í millum. Hún er látin sækjast eftir lífi bónda síns, fyrirfara tveimur tengdasonum sínum og gera tilraun til að drepa Þuríði dóttur sína og fleiri menn. Einnig er hún sögð hafa látið tortíma skipi á útsiglingu, selja mýs fyrir sauði og leggja inn grjót fyrir smjör og ost úr kaupstaðnum.

Ingibjörg leitast við að hreinsa sig af þessum galdraáburði og í Alþingisbókum Íslands árið 1687 er pistillinn „Um frelsiseið Ingibjargar Jónsdóttur úr Múlaþingi“.

Þuríður dóttir Ingibjargar giftist aðeins einu sinni og missti mann sinn, Guðmund Oddsson frá Húsavík í snjóflóði kringum 1690. Þau bjuggu í Nesi. Afkomendur þeirra kölluðust Galdra-Imbuætt. Af öðrum börnum Ingibjargar og Árna má nefna Gísla bónda í Geitavíkurhjáleigu í Borgarfirði eystri og Gunnar prest á Stafafelli í Lóni og Austari-Lyngum í Leiðvallarhreppi.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]