Friðarhöllin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friðarhöllin

Friðarhöllin er mikil bygging í hallarlíki í borginni Haag í Hollandi. Hún hýsir ýmsar alþjóðastofnanir, þar á meðal Alþjóðadómstólinn.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hugmynd að friðarhöllinni vaknaði á samræðu rússneska diplómatsins Friedrich Martens og bandaríska diplómatsins Andrew White árið 1900, en þeir ræddu um nýtt aðsetur fyrir alþjóðlegan dómstól til að stilla til friðar í milliríkjadeilum. Nokkrar friðarráðstefnur höfðu farið fram í Haag fram að þessu, sú fyrsta 1899. Góðvinur Whites, bandaríski auðjöfurinn Andrew Carnegie, ákvað að leggja fram 1,5 milljónir dala (40 milljónir á núvirði) í verkefnið, sem og fyrir bókasafn um alþjóðalög. Í þeim tilgangi var Carniegie-stofnunin sett á laggirnar 1903 til að sjá um framkvæmdina og rekstur slíks friðarhúss.

Byggingin[breyta | breyta frumkóða]

Anddyri friðarhallarinnar

Framkvæmdir við friðarhöllina hófust 1907 og lauk þeim 1913. Teikningarnar voru gerðar af franska arkítektanum Louis M. Cordonnier. Mikið er um súlnagöng að utan. Þar er einnig 80 metra hár turn, sem er eitt af einkennistáknum Haag. Mörg lönd heims gáfu efni til byggingarinnar, sérstaklega innréttingar og innanhúsmuni. Til dæmis má nefna að marmarinn á gólfinu og tröppunum er frá Ítalíu, viðurinn á veggjunum er frá Brasilíu, Bandaríkjunum og Indónesíu, stálgrindverkið utan um bygginguna er frá Þýskalandi, dyrnar eru frá Belgíu, vatnsbrunnur frá Danmörku, veggteppi frá Japan, turnklukkan frá Sviss og teppi frá Íran. Vasi, sem vegur 3,2 tonn, er gjöf frá Rússlandi. Á göngum og í sölum eru styttur og brjóstmyndir af þekktum frumkvöðlum friðarmála í heiminum. Höllin var síðan formlega opnuð 28. ágúst 1913 í viðurvist Carnegies og hollensku konungsfjölskyldunnar.

Stofnanir[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar stofnanir hafa fengið inni í friðarhöllinni.

  • Alþjóðagerðardómurinn (síðan 1913)
  • Bókasafn um alþjóðalög (síðan 1913)
  • Carnegie-stofnunin (síðan 1913)
  • Háskóli í alþjóðalögum (síðan 1923)
  • Alþjóðadómstóllinn (síðan 1946)

Friðarloginn[breyta | breyta frumkóða]

Friðarloginn

Í garðinum fyrir framan friðarhöllina er friðarlogi sem settur var upp 18. apríl 2002 á sérstakri friðargönguleið sem lögð var 2004. Í kringum logann hafa 196 steinar frá 196 löndum verið festir í jörðina. Þar er til að mynda steinn úr Berlínarmúrnum. Annar er úr fangaeyjunni Robben Island í Suður-Afríku, þar sem Nelson Mandela þurfti að dúsa í fangelsi í mörg ár. Á minnisvarðann sem ber logann stendur: Megi allar skepnur finna frið. Þar er einnig texti sem hljóðar svo (í lauslegri þýðingu):

Heimsfriðarloginn Í júlí 1999 voru sjö logar frá fimm heimsálfum sameinaðir til að skapa heimsfriðarlogann

Heimsfriðargöngustígurinn 196 þjóðir sameinuðust í verki og samstöðu til að skapa heimsfriðargöngustíginn

Opnaður í apríl 2004

Gjörðu svo vel að biðja fyrir friði þegar þú gengur hér um

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Vredespaleis“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. september 2011.