Franskur gullaldarstíll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Versalahöll er ein frægasta byggingin í frönskum gullaldarstíl

Loðvíks XIV stíll eða Louis Quatorze (/ˌluːi kæˈtɔːrz, - kəˈ-/ LOO-ee ka-TORZ, -⁠ kə-, franska: [lwi katɔʁz] (hlusta)), einnig kallaður Franskur gullaldarstíll var stefna í byggingar- og sjónlistum sem ætlað var að upphefja Loðvík XIV og stjórnartíð hans. Stefnan fól í sér mikilfengleik, samræmi og sjónræna reglufestu. Stíllinn varð opinber ríkisstíll undir stjórn Loðvíks XIV (1643-1715), bundinn í lagabókstaf með hinni nýstofnuðu Académie royale de peinture et de sculpture eða Hinni konunglegu frönsku mynd- og höggmyndalistarakademíu og Académie royale d'architecture eða Hinni frönsku byggingarlistarakademíu. Stefnan hafði afdrifarík áhrif á byggingarlist annara evrópskra einvalda, allt frá Friðrik mikla, konungs Prússlands, til Péturs mikla Rússakeisara.

Byggingarmeistarar tímabilsins[breyta | breyta frumkóða]

Grand Trianon í Versölum eftir Jules Hardouin Mansart reist á árunum 1680-1687

Helstu byggingarmeistarar tímabilsins voru François Mansart, Jules Hardouin Mansart, Robert de Cotte, Pierre Le Muet, Claude Perrault og Louis Le Vau. Helstu mannvirki eru Versalahöll, Grand Trianon-höllin í Versölum og Les Invalides-kirkjan (1675-91), mikil bygging sem í upphafi var ætlað að hýsa slasaða og fatlaða franska hermenn. Þá er grafhýsi Napóleóns Bonaparte þar undir[1].

Þrjú tímabil[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta tímabil (1643-1660)[breyta | breyta frumkóða]

Frönskum gullaldarstíl má skipta í þrjú tímabil. Á fyrsta tímabilinu, sem leið samhliða æskuárum konungsins og valdatíð móður hans, Önnu af Austurríki, voru arkítektúr og listir undir sterkum áhrifum frá eldri stíl fyrirrennarans Loðvíks XIII og ítölskum barrokk-stíl. Þarna mátti sjá upphaf fransks gullaldarstíls, einkum í elstu verkum Francois Mansart, til dæmis Chateau de Maisons (1630–51).

Annað tímabil (1660-1690)[breyta | breyta frumkóða]

Á öðru tímabili, undir beinni stjórn konungsins sjálfs, varð stíllinn í arkítektúr og skreytingalist bæði klassískari, íburðarmeiri og áberandi, sem endurspeglaðist einkum í byggingu Versala-hallar, í upphafi eftir Louis Le Vau og síðar í höndum Jules Hardouin-Mansart[2]. Til ársins 1680 voru húsgögn og innanstokksmunir umfangsmikil og stór, skreytt útskurði og gyllingum. Á þessu seinna tímabili varð breyting á því, þökk sé framþróun í útskurðartækni, fór að bera á öðrum litum og öðrum viðartegundum. Framsæknasti húsgagnasmiður seinna tímabilsins var André Charles Boulle[3].

Þriðja tímabil (1690-1715)[breyta | breyta frumkóða]

Lokatímabil Loðvíks XIV stílsins er jafnan talið helsta umskiptatímabilið; undir áhrifum Hardouin-Mansart og siðameistara konungs, Jean Bérain eldri. Stíllinn var öllu léttari en það sem á undan hafði komið og fól í sér frjálsari línur og meiri sköpunargleði, að hluta til má því þakka notkun smíðajárns og aukinni notkun sveigaflúra, grótesku- og skálamynstra, sem hélt áfram og blandaðist inn í stíl Loðvíks XV, sem kom á eftir[2].

Borgaraleg byggingarlist[breyta | breyta frumkóða]

Suðurhlið Vaux-le-Vicomte. Takið eftir hvolfþakinu.
Landslagsarkitektinn André Le Nôtre. eftir málarann Carlo Maratta

Elsta flaggskip borgararlegrar byggingarlistar í anda fransks gullaldarstíls er Vaux le Vicomte (1658), teiknað af Louis Le Vau, byggt fyrir þáverandi fjármálastjóra konungs Nicolas Fouquet. Loðvík XIV kærði síðar Foquet fyrir þjófnað árið 1661, setti hann í fangelsi (þar sem hann var til dauðadags 1680) og notaði bygginguna sjálfur. Hönnun Vaux le Vicomte var undir sterkum áhrifum frá klassískum stíl François Mansart. Hún einkenndist af framhlið sem yfirgnæfði og rímaði við tröllauknar klassískar súlur, undir hvolfþaki, stílbragð sem var tekið beint upp úr ítölskum barrokk arkítektúr, auk fjölda annara nýmóðins þátta, svo sem móttökusal sem myndaði hálfhring og sneri að hinum gríðarstóru frönsku lystigörðum sem voru sannkölluð völundarsmíð landslagshönnuðarins André Le Nôtre.

Í ljósi hinna vel heppnuðu Vaux le Vicomte fékk Loðvík XIV Le Vau til þess að teikna og byggja fyrir sig hinna gríðarstóru nýju Versala-höll, sem yrði uppfærsla á smærri höll sem hafði upphaflega verið veiðihús Loðvíks XII.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „The Dome church of Les Invalides and Napoleon's tomb“. French Moments (bandarísk enska). 20. ágúst 2018. Sótt 21. nóvember 2020.
  2. 2,0 2,1 Robert Ducher (1988). Caractéristique des styles. bls. 120.
  3. Renault og Lazé (2006). Les Styles de l'architecture et du mobilier. Editions Jean-Paul Gisserot. bls. 54–55.