Fara í innihald

Folafótur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Folafótur er nes og jörð í Súðavíkurhreppi á Vestfjörðum. Þar var í kringum aldamótin 1900 allstór byggð þurrabúðarfólks. Folafótur liggur undir fjallinu Hesti við Ísafjarðardjúp og dregur nafn sitt af Hestinum því það er nes á milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Ysti hluti nessins er kallað Fótartá. Árið 1850 var íbúatala þurrabúðarfólks á Folafæti 36, árið 1901 eru íbúar 81 og árið 1910 eru íbúar 101 en fækkar eftir það þegar miðin brugðust og vélbátaöld hófst. Þurrabúðarfólkið byggði afkomu sína á sjósókn og fengsælum miðum skammt undan landi sem nefndust Gullkistan. Seyðisfjarðarmegin við Fótinn var þurrabúðin Salahús en austanmegin voru Tjaldtangi og Sigga Sala-hús. Ábúendur í eynni Vigur fluttu fé sitt til Folafótar á afrétt.

Talið er að Folafótur sé fyrirmynd af uppvaxtarstað Ólafs Kárasonar ljósvíkings í skáldverkinu Heimsljós eftir Halldór Laxness.

Jörðin er nefnd Fótur eða Folafótur.