Fara í innihald

Vigur (eyja)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Horft inn Ísafjarðardjúp, Vigur fyrir miðju.

Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og önnur tveggja, sem eru byggðar. Eyjan liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót.

Elsta byggingin í Vigur er vindmylla sem er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og var byggð um 1860, og er hún sú eina sem enn er uppistandandi á Íslandi. Auk þess er í Vigur elsti bátur landsins, Vigur Breiður, áttæringur sem smíðaður var um 1800, og var notaður allt til ársins 2000 til að flytja sauðfé milli lands og eyjar, og er hann í góðu ástandi og sjófær.

Við eyjuna er kennd geysifjölmenn ætt, Vigurætt, sem eru afkomendur Þórðar Ólafssonar í Vigur, sem venjulega er nefndur Þórður stúdent. Vigurætt var gefin út fyrir allnokkrum árum, mikið safn í 10 bindum. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur. Nú eru engar kýr lengur á eynni þó þar hafi verið mikill mjólkurbúskapur áður. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Vaxandi ferðaþjónusta er á eynni og eru erlendir ferðamenn sífellt tíðari gestir. Flatarmál eyjarinnar er 0,37 km2.


  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.