Fara í innihald

Flugumýrarbrenna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Flugumýrarbrenna 22. október 1253 var einn af stórviðburðum Sturlungaaldar. Gissur Þorvaldsson, Haukdælingur og einn helsti fjandmaður Sturlunga, fluttist norður í Skagafjörð vorið 1253 og settist að á Flugumýri í Blönduhlíð. Hann vildi sættast við Sturlunga og hluti af þeirri sáttagerð var gifting Halls, elsta sonar Gissurar og konu hans, Gróu Álfsdóttur, og Ingibjargar, 13 ára dóttur Sturlu Þórðarsonar af ætt Sturlunga. Var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri um haustið með mikilli viðhöfn.

Ekki voru þó allir Sturlungar sáttir við þetta og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson, tengdasonur Sturlu Sighvatssonar, safnaði liði í Eyjafirði, fór með á fimmta tug vel vopnaðra manna yfir Öxnadalsheiði og var kominn að Flugumýri seint að kvöldi 21. október, þegar flestir voru gengnir til náða. Réðust þeir til inngöngu en varð lítið ágengt og þegar Eyjólfur ofsi sá um nóttina að hætt var við að menn úr héraðinu kæmu til liðs við Gissur og menn hans brá hann á það ráð að kveikja í húsunum. 25 manns fórust í eldinum, þar á meðal Gróa kona Gissurar og synir hans þrír, en Gissur sjálfur bjargaðist með því að leynast í sýrukeri í búrinu. Ingibjörg Sturludóttir bjargaðist einnig úr eldinum.

Skáldsagan Ofsi eftir Einar Kárason er byggð á frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu.