Sýra (drykkur)
Sýra eða sýrublanda var vinsæll drykkur fyrr á öldum. Hún var búin til með því að blanda saman vatni og gerjaðri mysu og segja sumir að enginn drykkur slökkvi þorsta eins vel og köld sýrublanda. Sýra var gerð þannig að mysa var sett á tunnur og látin gerjast og síðan geymd á köldum stað í nokkra mánuði eða lengur. Sagt er að sumum hafi þótt tveggja ára sýra best og mátti þá blanda hana með vatni í hlutföllunum 1:11 (tólftarblanda). Sýran var stundum bragðbætt á ýmsan hátt, t.d. með blóðbergi.
Sýru er getið í fornum bókum, og hefur bjargað lífi að minnsta kosti tveggja mektarmanna. Þorbjörn súr, faðir Gísla Súrssonar, var sagður hafa fengið viðurnefni sitt af því að hafa slökkt eld með sýru þegar fjendur brenndu bæinn hans. Gissur Þorvaldsson er sagður hafa komist lífs af úr Flugumýrarbrennu með því að fela sig ofan í sýrukeri meðan bærinn brann.