Flamenco

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flamenco-dansari á málverki eftir John Singer Sargent frá 1880-1881.

Flamenco er dans og tónlistarstefna sem varð til og þróast að mestu leyti í Andalúsíu á Spáni, á tímabilinu á milli 18. og 20. aldar. Uppruni flamenco er margþættur. Hann á sér rætur í blöndu spænskrar, sefardískrar og márískrar menningar á Suður-Spáni eftir endurheimt Spánar á 15. öld, en tengist sérstaklega flytjendum úr hópi gítana, spænsks rómafólks, og dregur líklega nafn sitt af uppnefni yfir þau.[1] Flamenco naut mikilla vinsælda og þróaðist sem sviðslist atvinnulistafólks á ofanverðri 19. öld. Á 20. öld. Í valdatíð Francisco Franco, varð hann að einu helsta menningarlega einkenni Spánar, ásamt nautaatinu, þrátt fyrir að í byrjun væri dansinn litinn hornauga af stjórninni. Flamenco hefur oft verið umdeildur á Spáni og ýmist talinn of „austrænn“ og tengdur rómafólki til að teljast spænskur, of villimannslegur og hávær. Þá hefur verið umdeilt hvort eigi að túlka flamenco sem alþýðutónlist og þjóðdans eða hámenningarlist. Stjórn Francos tók dansinn upp fyrst og fremst til að selja ímynd Spánar í ferðaþjónustu. Vaxandi vinsældir urðu til þess að dansinn gekk í endurnýjun lífdaga á síðari hluta 20. aldar og fékk stórt hlutverk í kvikmyndum og sem hluti af bylgju heimstónlistar.[2]

Flamenco þróaðist á 18. öld í Andalúsíu, sérstaklega í kringum hafnarborgina Cádiz, San Fernando, Jerez de la Frontera, Sevilla og nágrenni; en líka á vissum stöðum í Múrsíu, Kastilíu-La Mancha og Extremadúra.[3][4] Helstu þættir flamenco eru söngurinn (cante), gítarleikurinn (toque) og dansinn (baile); en menningarfyrirbærinu flamenco í Andalúsíu tengjast líka tilteknir skólar, fatnaður og lífstíll. Flamenco-dans einkennist af taktföstu stappi með sérstökum skóm, klappi og fingursmellum, smellum með kastaníettum, og stundum hrópum flytjenda og áhorfenda.

Flamenco var skráður á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf í nóvember 2010 að frumkvæði spænsku héraðanna Andalúsíu, Múrsíu og Extremadúra. Flamenco er líka vinsæll í öðrum spænskumælandi löndum, eins og í Rómönsku Ameríku, þar sem hægt er að finna flamenco-hópa og flamenco-skóla.[5][6][7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „flamenco (n.)“. Etymonline.
  2. Sandie Holguín, Zócalo Public Square (24. október 2019). „The Complicated History of Flamenco in Spain“. The Smithsonian Magazine.
  3. „Tangos y jaleos. La salvia del flamenco extremeño“. Vivir Extremadura. 11. apríl 2013.
  4. „Murciana | Flamencopolis“. flamencopolis.com (evrópsk spænska).
  5. „Buenos Aires flamenco“.
  6. „El poderío de "Flamenco Auténtico" cautiva Brasil“.
  7. Mendoza, Gabriela (2011). „Ser flamenco no es una música, es un estilo de vida“. El Diario de Hoy: 52.
  Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.