Ferðaskrifstofa ríkisins
Ferðaskrifstofa ríkisins (enska: Statourist, sbr. ferðaskrifstofu Sovétríkjanna Intourist) var íslensk ferðaskrifstofa í eigu íslenska ríkisins sem var stofnuð 1936 á kreppuárunum með einkaleyfi til reksturs ferðaskrifstofu fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Á þeim árum færðist mjög í vöxt að erlend skemmtiferðaskip kæmu við á Íslandi og ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein. Ferðaskrifstofan átti að auglýsa þjónustu í boði innanlands, hafa eftirlit með verðlagi þjónustunnar svo ekki væri okrað á ferðamönnum, hafa eftirlit með gæðamálum hjá hótelum og veitingahúsum, sjá um bókanir og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands erlendis. Ferðaskrifstofan var fjármögnuð með sérstökum skatti á selda farmiða sérleyfishafa áætlanabifreiða. Hún úthlutaði einnig starfsleyfum til annarra ferðaskrifstofa víða um land. Fyrsti forstöðumaður ferðaskrifstofunnar var Eggert P. Briem og voru skrifstofur hennar til húsa við Tryggvagötu. Eini starfsmaður stofnunarinnar í upphafi var Ragnar E. Kvaran með starfsheitið „landkynnir“. 1938 var minjagripasala opnuð í húsnæði Ferðaskrifstofunnar. Ferðaskrifstofan heyrði undir skipulagsnefnd atvinnumála sem Stjórn hinna vinnandi stétta kom á fót til að bregðast við kreppunni. Ferðaskrifstofan var harðlega gagnrýnd af Sjálfstæðismönnum og eftir að ný þjóðstjórn var mynduð í apríl 1939 var hún lögð niður.
Eftir Síðari heimsstyrjöld var ákveðið að endurreisa Ferðaskrifstofu ríkisins til að sjá um upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna og orlofsferðir stéttarfélaga. Fljótlega varð Ferðaskrifstofan líka áberandi í hótel- og gistihúsarekstri víða um land.
Einkaleyfi Ferðaskrifstofu ríkisins var tekið aftur árið 1964 um leið og Ferðamálaráð var stofnað en Ferðaskrifstofan var áfram áberandi í íslenskri ferðaþjónustu og sá til dæmis um bókanir fyrir ríkisstofnanir auk reksturs hótela. Árið 1988 var henni breytt í hlutafélag og 2/3 hlutanna seldir starfsmönnum undir heiti Ferðaskrifstofu Íslands. Árið 1992 var Ferðaskrifstofan að fullu einkavædd sem hluti af starfi einkavæðingarnefndar og hlutur ríkisins seldur.