Fara í innihald

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Einkavæðingarnefnd)

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, oft kölluð einkavæðingarnefnd, var nefnd á vegum íslenska ríkisins sem hafði það hlutverk að annast sölu á eignarhlutum ríkisins í félögum, færa verkefni til einkaaðila með útboðum og fara í kerfisbundna athugun á eignaumsýslu ríkisins til að draga úr kostnaði við hana. Skipan nefndarinnar var í samræmi við einkavæðingaráform Viðeyjarstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar sem tók við völdum í apríl 1991. Nefndin var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, en formaður hennar var skipaður af forsætisráðherra. Nefndin tók til starfa 4. febrúar 1992. Fyrsti formaður hennar var Hreinn Loftsson hrl. sem áður var aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hinn 11. febrúar 2002 var Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu skipaður formaður og árið 2004 tók Jón Sveinsson hrl. við. Síðasti formaður nefndarinnar var Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, skipaður í ársbyrjun 2007.

Fyrsta árið sem nefndin starfaði var hlutur ríkisins í átta fyrirtækjum seldur. Fyrsta salan var á ríkisfyrirtækinu Prentsmiðjunni Gutenberg. Frá upphafi risu deilur um margar af þessum sölum, allt frá því að Menningarsjóður var seldur 1992 þar til hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var seldur árið 2007. Mestur styr stóð þó um einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka 1998, Símans árið 2005 og sölu á hlut ríkisins í bönkunum; Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankanum og Búnaðarbankanum á árunum 1999-2003. Samkvæmt yfirliti nefndarinnar skiluðu 44 sölur á ríkiseignum frá 1992-2005 samtals rúmlega 141 milljarði króna í ríkissjóð á verðlagi ársins 2005.

Nefndin starfaði til ársins 2007 þegar Þingvallastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum.