Föhr

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gervihnattamynd af Föhr. Baðstrendurnar á suðurströndinni sjást greinilega. Til vinstri að ofan er Sylt, að neðan Amrum. Til hægri er meginlandið.

Föhr (frísneska: Feer; danska: Før) er þýsk eyja í Norðursjó og er hluti af Norðurfrísnesku eyjunum. Hún er stærsta þýska eyjan sem ekki tengist meginlandinu með samgöngumannvirki (brú eða járnbrautarlínu). Íbúar eru rúmlega 8.600 en á ferðamannatímabilinu margfaldast sú tala.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Föhr er næstnyrsta þýska eyjan í Norðursjó og liggur fyrir sunnan og austan eyjuna Sylt. Reyndar nær nyrsti oddi Föhr norður fyrir syðsta tanga Sylt. Fyrir sunnan liggur eyjan Langeness og fyrir suðvestan er eyjan Amrum. Förh er 12 km löng og 6,8 km breið. Flatarmálið er 82 km². Þar sem Föhr liggur nokkurn vegin í skjóli fyrir úthafsöldum innan við Sylt og Amrum, hefur eyjan breyst tiltölulega lítið í gegnum aldirnar. Landbrot er lítið og gróður mikill. Af þeim sökum er Föhr gjarnan nefnd „græna eyjan“. Meginþorri eyjarinnar er gerður úr föstum jarðvegi. Hæsta hæðin er þó eingöngu 13 metra há. Miklir sandar eru meðfram suðurströnd Föhr, sem eru ákaflega vinsælir meðal baðgesta. Baðströndin þar er heilir 15 km löng. Á Föhr eru samtals 16 þorp, flest þeirra smá. Þeirra stærst er Wyk með 4.400 íbúa.

Saga Föhr[breyta | breyta frumkóða]

Baðströnd á Föhr

Föhr var áfast meginlandinu allt til 1362. Þá braut stormflóð landsvæðið frá og þannig myndaðist eyjan. Íbúar hennar voru frísar og gengu þeir Danakonungi á hönd. Norðurhluti eyjarinnar var grunn vík lengi vel, en frísum tókst að þurrka hana 1523 og búa til ræktarland. Þremur árum seinna, 1526, hófust siðaskiptin á eynni og lauk því ferli á 4 árum. Á 17. og 18. öld voru hvalveiðar mikilvæg tekjulind eyjaskeggja. Í lok 18. aldar bjuggu um þúsund sæfarar þar. Mörg gömul glæsihús frá þeim tíma standa enn á Föhr. Þegar hvalveiðarnar lögðust af, fækkaði íbúum, enda varð landbúnaður þá aftur aðalatvinnuvegur. 1842 dvaldi Kristján VIII Danakonungur á Föhr sumarlangt og við það varð baðströndin þar þekkt. Meðan dansk-þýska stríðið geysaði 1864 var danski flotaforinginn Otto Christian Hammer í hafnarbænum Wyk á Föhr með lítinn flota. Honum tókst að verjast prússneskum sjóliðum af miklum vaskleik. Danir töpuðu hins vegar stríðinu og var Hammer flotaforingi þá handtekinn. Í stríðslok varð Föhr prússnesk, rétt eins og aðrar norðurfrísneskar eyjar. Gengið var til aðkvæðagreiðslu á eynni 1920 þar sem Weimar-lýðveldið gaf eyjaskeggjum kost á að kjósa til um hvort þeir vildu tilheyra Þýskalandi áfram eða verða Danir eins og fyrir 1864. Flestir bæirnir kusu áframhald með Þýskalandi. Þrír bæir kusu hins vegar að sameinast Danmörku. Þar sem ákveðið var að skipta eyjunni ekki upp, var eyjan því áfram þýsk. Aðalatvinnuvegur íbúanna er ferðamennska. Hinar miklu baðstrendur laða að tugþúsundir ferðamanna. Fáeinir stunda þó enn landbúnað og sömuleiðis er örlítið útgerð frá eynni.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Eyjan hét áður Foer, Føør og Ford. Það er dregið af germanska orðinu fer og merkir að fara. Sennilega hefur verið talað um „að fara út í ey“.[1] Aðrir vilja meina að heitið sé dregið af frísneska orðinu feer, sem merkir ófrjósamur.

Áhugaverðir staðir[breyta | breyta frumkóða]

Wyk[breyta | breyta frumkóða]

Miðbærinn í Wyk

Wyk er höfuðstaður Föhr og er með 4.400 íbúa. Bærinn liggur suðaustast á eynni og er eina hafnaraðstaða hennar. 1819 varð Wyk opinber baðstaður en 1910 hlaut hann borgarréttindi. Í dag starfa flestir íbúanna við ferðamennsku. Árið 2002 voru gistinætur í Wyk 492 þúsund. Frá Föhr er hægt að sigla á ferju til Dagebüll á meginlandinu en einnig til eyjarinnar Amrum. Við Wyk eru víðáttumiklar baðstrendur.

Nikulásarkirkjan[breyta | breyta frumkóða]

Nikulásarkirkjan

Á Föhr eru þrjár kirkjur, allar frá 12. og 13. öld. Nikulásarkirkjan er í þorpinu Boldixum nálægt Wyk. Hún var reist á 13. öld og kom fyrst við skjöl 1240. Árið 1426 var kirkjan notuð sem fundarstaður fyrir lénsherra sem rituðu niður frísnesk lög í fyrsta sinn. Lögbók þessi kallast Siebenhardenbeliebung. Altaristaflan er geysifögur. Hún var smíðuð 1643 og er í þremur hlutum með alls konar fígúrum og myndum. Orgelið er frá 1735. Í kirkjunni er viðarstytta af heilögum Nikulási sem smíðuð var árið 1300. Nikulás er verndardýrlingur kirkjunnar, sem og sjómanna og barna.

Frísasafnið í Wyk[breyta | breyta frumkóða]

Í Wyk er Frísasafnið (Friesenmuseum) sem gerir grein fyrir menningu og sögu eyjarinnar Föhr. Þar má sjá ýmislegt í sambandi við sjómennsku, stormflóðin, frísneska menningu, jarðfræði og dýralíf.

Vindmyllur[breyta | breyta frumkóða]

Vindmyllan Venti Amica (Vinur vindsins)

Á Föhr eru alls fimm vindmyllur, þar af tvær í Wyk. Flestar eru frá 19. öld og eru í einkaeigu, nema myllan í þorpinu Wrixum.

Vaðhafið[breyta | breyta frumkóða]

Á fjöru myndast víðáttumiklar leirur í kringum Föhr. Hægt er að ganga langar leiðir á leirunum, til dæmis til nágrannaeyjarinnar Amrum. Leirurnar eru þó varasamar, því það flæðir mjög hratt að. Leirurnar eru mikilvægar fyrir ýmsar fuglategundir en á Föhr er mikið af tjaldi, æðarfugli og brandönd. Á fartímanum og á veturna eru milljónir vaðfugla á leirunum.

Þjóðsaga[breyta | breyta frumkóða]

Við upphaf siðaskiptanna 1524 átti djákni nokkur í einni kirkjunni að hafa barist mjög á móti nýju trúnni. Hann ákvað að sanna að kaþólska kirkjan væri eina rétta kirkjan með því að fara ríðandi yfir leirurnar í Vaðhafinu til nágrannaeyjarinnar Amrum. Hann lagði mikla áherslu á það við eyjaskeggja að ef hann ætti ekki afturkvæmt, væri lúterska trúin rétt. Djákni lagði af stað og komst klakklaust til Amrum. En á bakaleiðinni féll hann af hestabaki og hálsbrotnaði. Hann lést á staðnum. Eftir þetta gengu siðaskiptin vandræðalaust fyrir sig.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 99.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]