Fara í innihald

Rithöfundafélag Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rithöfundafélag Íslands var stofnað sem sérsamband innan Bandalags íslenskra listamanna á aðalfundi BÍL vorið 1942 þegar ákveðið var að breyta félaginu í félagasamband. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Ásgeirsson en Friðrik Á. Brekkan tók við árið 1944. Á fundi félagsins 1945 stakk hann upp á Guðmundi G. Hagalín sem eftirmanni sínum en kosning fór þannig að Halldór Stefánsson var kjörinn formaður. Við það tækifæri klofnaði félagið og margir rithöfundar tóku sig saman og stofnuðu Félag íslenskra rithöfunda sem einnig gerðist aðili að BÍL. Félögin tvö áttu þó samstarf um ýmis hagsmunamál og árið 1957 var Rithöfundasamband Íslands stofnað og gerðist aðili að BÍL fyrir hönd beggja félaganna. Árið 1975 var ákveðið að félögin skyldu sameinast í Rithöfundasambandinu og félagar þeirra gerast félagar í sambandinu beint. Þá var Rithöfundafélagið lagt niður en Félag íslenskra rithöfunda starfaði áfram sem bókmenntafélag.