Eylendið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Eylendið (Skagafirði))

Eylendið er víðáttumikið flatlendi í miðjum Skagafirði, nær utan frá sjó beggja vegna við Hegranes og suður að norðurmörkum Vallhólmsins en stundum er nafnið þó notað um allt sléttlendið í firðinum inn að Reykjatungu.

Hegranes klýfur Eylendið sundur til hálfs en að því frátöldu er Geldingaholt eina mishæðin á því öllu, nema miðað sé við víðari skilgreininguna, þá bætast Vallholt og Skiphóll við. Annars er landið allt rennislétt og svo hallalítið að 20 km frá sjó er hæðin yfir sjávarmáli aðeins 6 metrar.

Eylendið er sundurskorið af Héraðsvötnum, sem sumstaðar renna í nokkrum kvíslum eða breiðum farvegum og hafa í aldanna rás oft skipt um farveg, og Húseyjarkvísl, sem raunar heitir ýmum nöfnum þar sem hún rennur um Eylendið. Það skiptist því sundur í hólma, eyja og nes. Þarna eru víðáttumestu flæðilönd landsins. Þau voru áður víða nýtt sem engjar. Sumstaðar hefur landið verið þurrkað upp og breytt í tún en annars staðar er votlendið griðland fugla, einkum þó Austara-Eylendið, austan við Hegranes, og er það á náttúruminjaskrá. Þar er mikið og fjölbreytt fuglalíf, endur, grágæs, óðinshani, stelkur og jaðrakan, svo og sjaldgæfari tegundir, svo sem flórgoði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • „Faglegu mati beitt á verndargildi svæða. Morgunblaðið, 9. október 2003“.
  • „Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004-2008. Á vef Alþingis, sótt 5. nóvember 2010“.