Eyjabakkar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Horft til upptaka Jökulsár í Fljótsdal frá Eyjabökkum.
Göngufólk við dýjamosavaxinn læk við Eyjabakka.

Eyjabakkar eru gróið votlendissvæði á flata upp af Fljótsdal og framan við jökulsporð Eyjabakkajökuls í um 640 metra hæð yfir sjávarmáli. Jökulsá í Fljótsdal kvíslast um svæðið og fellur svo um Eyjabakkafoss niður í Fljótsdal. Á Eyjabökkum er stórt varpland heiðagæsa og þar er samfelld gróðurheild sjaldgæft er í svo mikilli hæð yfir sjávarmáli. Ramsar-samþykktin nær nú yfir svæði og er það hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Undir lok 20. aldar stóð til að virkja Jökulsá á Fljótsdal í svonefndri Fljótsdalsvirkjun með stíflu við Eyjabakkafoss sem hefði sökkt Eyjabökkum undir uppistöðulón. Markmið þeirrar framkvæmdar hefði verið að sjá álveri sem þó stóð til að reisa á vegum Norsk Hydro við Reyðarfjörð fyrir raforku. Framkvæmdin varð mjög umdeild vegna væntanlegra umhverfisáhrifa hennar og ýmis samtök náttúruverndarsinna lýstu yfir harðri andstöðu við virkjunina. Þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, neitaði þó að stöðva framkvæmdina og lýsti því yfir að hún væri ekki „bergnumin yfir Eyjabökkum“.[1]

Þó að öll tilskilin leyfi hafi legið fyrir varð þó ekkert af byggingu Fljótsdalsvirkjunar þar sem hún var ekki nægjanlega stór til að standa undir orkuþörf vegna álversins eftir að ákveðið var að stefna að stærri verksmiðju.[2] Í staðinn var ráðist í gerð Kárahnjúkavirkjunar sem meðal annars felur í sér stíflu í Jökulsá í Fljótsdal fyrir neðan Eyjabakkafoss og 1 km2 lón sem gengur þó ekki inn á hina eiginlegu Eyjabakka.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „"Er ekki bergnumin yfir Eyjabökkum"“. mbl.is [á vefnum]. 13. ágúst 1999, [skoðað 14-03-2013].
  2. „Fallið frá málaferlum vegna Fljótsdalsvirkjunar“. mbl.is [á vefnum]. 22. júní 2000, [skoðað 14-03-2013].