Ellen MacArthur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ellen MacArthur árið 2007.

Ellen MacArthur (f. 8. júlí 1976) er ensk siglingakona frá þorpinu Whatstandwell í Derbyshire. Hún er þekktust fyrir að hafa sett met í siglingu einsömul umhverfis jörðina 7. febrúar 2005 á 71 degi, 14 tímum, 18 mínútum og 33 sekúndum á 75 feta þríbytnunni B&Q/Castorama. Hún bætti þannig fyrra met Francis Joyon frá árinu áður um einn dag og átta og hálfan tíma. Joyon sló síðan met hennar aftur árið 2008.

Ellen á núverandi heimsmet í siglingu einsömul yfir Atlantshafið frá austri til vesturs á kjölbát frá því hún sigldi Kingfisher frá Plymouth til Newport á Rhode Island á 14 dögum, 23 tímum og 11 mínútum. Hún á líka núverandi kvennamet í siglingu yfir Atlantshafið frá vestri til austurs með því að sigla B&Q/Castorama frá Ambrose Light í New York-flóa til Lizard Point í Cornwall á 7 dögum, 3 tímum og 50 mínútum. Hún er sú kona sem hefur náð bestum árangri í Vendée Globe-keppninni þar sem hún hafnaði í öðru sæti árið 2001.

Árið 2009 tilkynnti hún að hún væri hætt þátttöku í siglingakeppnum. Árið eftir stofnaði hún góðgerðastofnunina Ellen MacArthur Foundation sem vinnur að þróun hringhagkerfis.