Hringhagkerfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd sem lýsir muninum á línulegu hagkerfi og hringhagkerfi.

Hringhagkerfi eða hringrásarhagkerfi er hagkerfi sem reynir að lágmarka úrgang og hámarka nýtingu auðlinda. Því er stillt upp gegn hefðbundnu „línulegu“ hagkerfi sem byggist á því að „taka, nota og henda“. Í hringhagkerfi er leitast við að hægja á, minnka og loka hringrásum orku og efna með því að hanna endingarbetri vörur sem gera ráð fyrir viðhaldi og viðgerðum, endurnýtingu og endurvinnslu. Fylgjendur þessarar hugmyndar halda því fram að hægt sé að ná markmiðum sjálfbærni án þess að draga úr lífsgæðum eða gera róttækar breytingar á lífsháttum fólks, og að viðskiptalíkön sem byggjast á hringrásarhugsun séu jafn ábatasöm og hefðbundin línuleg viðskiptalíkön. Samkvæmt hugmyndinni um hringhagkerfi er með nýsköpun hægt að ná fram aukinni nýtni án þess að draga úr hagkvæmni.

Hugmyndir sem liggja að baki hugtakinu hringhagkerfi eiga sér nokkurra áratuga langa sögu en hringhagkerfi varð fyrst áberandi í umræðum um sjálfbæra þróun á 1. áratug 21. aldar. Hugmyndin var tekin upp sem hluti af 11. fimm ára áætlun Kína árið 2006 og árið 2009 stofnaði breska siglingakonan Ellen MacArthur stofnunina Ellen MacArthur Foundation til að vinna að framgangi hringhagkerfa.

Algengt er að nefna aðferðir eins og hönnunarhugsun, kerfishugsun, auðlindaendurheimt, frá vöggu til vöggu og lífhermun í tengslum við hringhagkerfi.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.