Fara í innihald

Einingarsamtök kommúnista (ml)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) var maóísk stjórnmálahreyfing sem starfaði frá byrjun áttunda áratugs tuttugustu aldar fram undir miðjan þann níunda. Upphaf hennar má finna meðal íslenskra námsmanna í Noregi á árunum fyrir og eftir 1970. Þá gekk þar yfir mikil róttæknibylgja og var þungamiðja hennar maóistasamtökin AKP (ml)(no). Þetta voru þá sterkustu maóistasamtök í Evrópu. Þegar norskmenntuðu maóistarnir fóru að snúa aftur til Íslands gengu þeir til að byrja með í Fylkinguna með það fyrir augum að gera hana að maóistasamtökum. Það reyndist erfiðara en þeir höfðu haldið. Aðrir námsmenn sem höfðu gengið trotskíismanum á hönd við nám t.d. í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi hófu einnig skipulagt starf í Fylkingunni. Barátta þessara tveggja strauma endaði með því að maóistarnir yfirgáfu samtökin 1973 og stofnuðu sín eigin samtök undir nafninu Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar). Samtökin urðu þó mun þekktari undir skammstöfuninni EIK(ml). Mikil áhersla var lögð á fræðinám með námshringjum og útgáfu á ýmsum bæklingum um fræðikenninguna.

Fyrir utan að halda áfram baráttu við Fylkingartrotskíistana og Alþýðubandalagið voru deilur við hin aðal maóistasamtökin KSML mikilvægur þáttur í starfi samtakanna. EIK (ml) valdi, andstætt við KSML, að vinna með og innan breiðari samtaka t.d. Víetnamhreyfingarinnar, kvennahreyfingarinnar, samtaka herstöðvaandstæðinga og verkalýðsfélaga. Tókst samtökunum um tíma að ná talsverðu fylgi í menntaskólum og háskólanum.

Upp úr 1975 fór að halla undan fyrir EIK (ml), ýmsar ástæður voru fyrir því, sú mikilvægasta kannski að róttæknibylgjan á vesturlöndum var farin að fjara út. Deilur og vopnuð átök kínverskra og víetnamskra kommúnista áttu stóran þátt í því að slökkva á eldhuga margra róttæklinga. Deilur Kínverja og Albana um réttu línuna 1978, þegar Kína kom á stjórnmálasambandi við Bandaríkin, splundraði að lokum alþjóðhreyfingu maóista.

Svo var komið 1979 að það sem eftir var af EIK (ml) og KFÍ-ml (eins og KSML hétu þá) var sameinað í ein samtök sem kölluð voru Kommúnistasamtökin (KS). Þau voru endanlega lögð niður 1985.

Málgagn EIK (ml) var tímaritið Verkalýðsblaðið (1975-1985).

Formaður miðstjórnar EIK (m-l) var alla tíð Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur.

  • '68 Hugarflug úr viðjum vanans. Gestur Guðmundsson, Kristín Ólafsdóttir. Tákn,1987.
  • Óvinir ríkisins, Guðni Th. Jóhannesson, Mál og menning, 2006. ISBN 9979-3-2808-8