Fara í innihald

Einar Guðmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Guðmundsson var prestur á Stað á Reykjanesi í Barðarstrandarsýslu frá 1619 til 1635. Um fæðingar- og dánarár Einars er ekki vitað en foreldrar hans voru séra Guðmundur Jónsson á Stað á Reykjanesi og Halldóra Guðmundsdóttir, systir séra Jóns í Hítardal.

Einar er talinn hafa lært utanlands áður en hann varð prestur á Stað á Reykjanesi. Hann var lærdómsmaður og þýddi m.a. úr þýsku og dönsku. Fyrri kona hans hét Þóra Finnsdóttir, systir Jóns Finnssonar sem átti Flateyjarbók og gaf Brynjólfi Sveinssyni árið 1647. Seinni kona Einars var Sigríður Erlendsdóttir.

Árið 1633 bar Einar tvö sóknarbörn sín galdri þegar Sigríður veiktist. Hjónin á Stað á Reykjanesi töldu þetta vera verk Auðunnar Þorsteinssonar eða sonar hans. Einar ritaði bréf til Auðunnar og hótaði að kæra þá feðga. Hann lagði ekki fram formlega kæru en ásakaði þá opinberlega um fjölkyngi og meinaði Auðunni að ganga til altaris um tíma. Einar lét síðan undan og leyfði Auðunni að vera til altaris en las upp heiftarlegt bréf áður en hann útdeildi Auðunni sakramentið og bað um að Auðunn skyldi strax fá refsingu ef hann væri sekur um galdur eða þjófnað. Magnús Arason varð vitni að ofsóknum Einars í kirkjunni og studdi mál Auðunns gegn Einari. Auðunn kærði framferði Einars til Gísla Oddssonar biskups og vann málið.

Árið 1636 var Einar dæmdur af embætti fyrir galdraáburð, rógburð og fleira. Hann og Sigríður fluttu þá að Kleifum í Gilsfirði. Hann var ennþá á lífi árið 1649.

Heilsan tilsendist þér, Auðunn Þorsteinsson, eftir maklegleikum. Vil eg þig vita láta það tilfelli sem hér er skéð að Sigríður mín hefir fengið verk undarlegan í sitt auga... og er það okkar beggja meining að það sé af völdum þínum eður þíns sonar Björns, því þið eruð báðir við fjölkyngi og galdra kendir; og batni henni ekki... þá lýsir hún ykkur sinn sáramann eður bana, ef svo reynist. Því máttu taka þig í vakt í tíma, því vita máttu, sé heitur blóðdropi í mér, þá mun eg þar til kosta hjá því Danska yfirvaldi, að þú megir uppbera þitt maklegt straff, sem einum galdramanni eður óbótaþræl hæfir eftir lögum.

Úr bréfi Einars til Auðunnar Þorsteinssonar[1]

Einar var þekkt rímna- og sálmaskáld á 17. öld en fá eintök af verkum hans hafa varðveist. Skotlands rímur Einars er aðeins til í einu handriti (í AM 146 a 8vo, með hendi Jóns Finnssonar) en William Alexander Craigie gaf þær út árið 1908.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Skotlands rímur: Icelandic ballads on the Gowrie conspiracy, 18-19.

Einar Guðmundsson. Skotlands rímur: Icelandic ballads on the Gowrie conspiracy. W. A. Craigie (ritstj.). Oxford: Clarendon Press, 1908.