Eilífur Örn Atlason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eilífur örn Atlason var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land á Skaga utan frá Mánaþúfu. Það örnefni er týnt og alveg óvíst hvar á austurströnd Skagans það var. Eilífur örn nam líka Laxárdal og samkvæmt Landnámabók einnig til Gönguskarðsár og þar með Gönguskörð og Reykjaströnd en líkur hafi verið leiddar að því að landnámið hafi ekki náð svo langt inn eftir, heldur aðeins yfir Skaga og Laxárdal, en Skefill hafi numið Gönguskörð og Reykjaströnd. Allt er þó óvíst um þetta.

Landnámsjörð Eilífs arnar er líka óþekkt en hún var í Laxárdal. Sonur hans, Atli hinn rammi, er sagður hafa búið á Eilífsfjalli eða Eilífsfelli en það bæjarnafn er nú óþekkt. Fjallið Tindastóll, sem gnæfir yfir landnámi Eilífs, hét áður Eilífsfjall.

Í upptalningu Landnámabókar á landnámsmönnum í Húnaþingi er eyða í röðinni frá landnámi Holta í Langadal og að landnámi Hólmgöngu-Mána úti á Skagaströnd, fyrir utan Fossá, og hefur sú kenning verið sett fram að landnám Eilífs arnar hafi náð þvert yfir Skagann, en sú tilgáta er talin ósennileg.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók“.
  • Ólafur Lárusson (1940). Landnám í Skagafirði. Sögufélag Skagfirðinga.