Gönguskörð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gönguskörð eru byggðarlag og dalur í vestanverðum Skagafirði, rétt norðan og vestan við Sauðárkrók, inn á milli Molduxa að sunnan og Tindastóls að norðan. Þegar komið er skammt inn í Gönguskörðin klofna þau í þrjár álmur. Sú syðsta liggur suður í Víðidal á Staðarfjöllum, sú í miðið liggur til suðvesturs og heitir þar Kálfárdalur en sú þriðja og breiðasta liggur norður með Tindastóli. Gönguskarðsá rennur um skörðin og safnar í sig mörgum smærri ám.

Nokkrir bæir eru enn í Gönguskörðum en margir eru komnir í eyði. Í dalsmynninu norðanverðu, undir Tindastóli, er bærinn Skarð, sem líklega hét áður Gönguskarð. Við hann var Skarðshreppur kenndur. Skíðaland Sauðárkróksbúa er í Tindastóli og margar vinsælar gönguleiðir eru á þessu svæði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.