Fara í innihald

Afleiða (fjármál)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Derivative)

Afleiða (e. derivative) í viðskiptum er samningur eða fjármálagerningur þar sem undirliggjandi verðmæti þeirra fer eftir verðþróun annarrar eignar eða eigna. Nafnið vísar því til þess að verðmæti verðbréfsins er leitt af verðþróun annarra eigna.

Því eru lítil takmörk sett á hverju afleiður geta byggt. Sem dæmi má nefna hlutabréf, húsnæðislán, almenn lán, verðbréf, gjaldmiðla, hagvísitölur eða vextir banka. Þannig er hægt að eiga viðskipti með afleiður með hrávörur t.d.: ál, hveiti eða olíu sem undirliggjandi eignir. Til dæmis gæti afleiða kveðið á um réttinn til að kaupa tiltekið magn af áli á tilteknu verði á tilteknum degi eða tímabili en það kallast kaupréttarsamningur (e. call option).

Algengustu tegundir afleiða eru framvirkir samningar, valréttarsamningar eða vilnanir, t.d. kaup- eða söluréttarsamningar (e. put option) og skiptasamningar, t.d. vaxtaskiptasamningar.

Öðruvísi afleiður

[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem afleiður eru í eðli sínu samningar á milli tveggja aðila þá eru því nánast engin takmörk sett hvað getur verið sem viðmið, eða undirliggjandi eign, þegar verðmæti afleiðusamningsins er reiknaður. Þannig eru til afleiður sem reiknast útfrá veðri, t.d. fjöldi góðviðris- eða rigningardaga á ákveðnu landsvæði, eða ævilengd einhverns ákveðins hóps fólks, t.d. meðlima í lífeyrissjóð.

Þetta útskýrist af því hvernig afleiður eru notaðar til að verjast áhættu. Appelsínuræktendur í Flórída eru háðir veðri og rekstraraðilar lífeyrissjóða háðir því að raunveruleg ævilengd sé ekki lengri en þær ævilíkur sem voru notaðar til að reikna út réttindi til lífeyrisgreiðslna. Það er því eðlilegt að þessir aðilar reyni að verjast þessari áhættu en til þess má nota afleiður. Skilyrðið er að finna aðila sem er tilbúinn til þess að taka áhættuna, gegn greiðslu, á því að veðrið verði vont eða meðalævi lengist ekki úr hófi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Um afleiðusamninga á vef Kaupþings banka – skoðað 3. desember 2007
  • „Hvað eru afleiður og þá afleiðustöður og notkun þeirra í fyrirtækjarekstri?“. Vísindavefurinn.
  • Um afleiður á Investopedia - skoðað 5. desember 2007
  Þessi hagfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.